| 28. september kl. 14.11 | ruv.is |
Erfiðir tímar framundan
segir Arnar Sigurmundsson
Störfum í sjávarútvegi mun fækka um 1.000 á sjó og landi næstu 6-12 mánuði vegna niðurskurðar Þorskheimilda og afleiðinga þess. Þetta er mat formanns Landssambands fiskvinnslustöðva. Niðurfelling skattheimtu í formi veiðigjalda sé brýn til að bæta það sem unnt sé.
Þriðjungskvótaniðurskurður á þorski, verðmætasta fiskinum, kippir fótunum undan mörgum í fiskvinnslu segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssambands fiskvinnslustöðva. Hann segir miklar breytingar fram undan. Búa verði sig undir erfiða tíma.
Um 100 starfsmönnum hjá 2 fiskvinnslufyrirtækjum var sagt upp í gær. Hjá Humarvinnslunni i Þorlákshöfn og Eskju á Eskifirði. Þetta er aðeins upphaf þess sem koma skal næstu 6-12 mánuði að dómi Arnars.
Afurðaverðinu er ekki um að kenna. Útflutningsverðmæti í ár verður um 120 milljarðar segir formaður Landssambands fiskvinnslustöðva en næsta ár verði útflutningsverðmætið nær 100 milljörðum.
Aðalfundur Landssambands fiskvinnslustöðva stendur yfir. Í drögum að ályktun fundarins segir að skjótvirkasta aðgerðin til bóta fyrir sjávarútveginn í heild, væri að fella niður veiðigjöld.
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 (breytt kl. 22:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
| 28. september kl. 11.30 | eyjar.net |
Hjartað slær við höfnina
Vestmannaeyingar fagna afmæli Bæjarbryggjunnar: 100.ára í haust
Fréttablaðið í dag
Um þessar mundir halda Vestmannaeyingar upp á hundrað ára afmæli Bæjarbryggjunnar sem var tekin í notkun árið 1907. Frá náttúrunnar hendi hefur þó verið höfn í Eyjum frá landnámstíma.
Eins og frægt er orðið var fyrsta kirkjan á Íslandi reist við höfnina í Vestmannaeyjum þegar kristnitakan átti sér stað árið 1000. Svo liðu aldirnar og árin og alltaf var útgerð frá Eyjum, enda er þar ein af elstu verstöðvum Norður-Atlantshafs," segir Arnar Sigurmundsson, formaður framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja.
Fyrsta bryggjan var svo reist þegar vélbátar hófu að koma til landsins og til að sinna þeim betur réðist þetta litla sveitarfélag í að byggja hana. Fljótlega fékk hún nafnið Bæjarbryggjan og í ár minnumst við Vestmannaeyingar þessara tímamóta," segir Arnar.
Nokkrum árum síðar, eða árið 1911, var bryggjan stækkuð og endanlega mynd fékk hún árið 1925. Nú er hins vegar verið að vinna í að endurgera þessa aldargömlu bryggju og er stefnt að því að hún fái eins upprunalegt útlit og kostur er enda höfðar slíkt bæði til heima- og ferðamanna.
Höfnin í Vestmannaeyjum hefur alltaf verið talin mjög góð og eftir gosið varð hún enn betri því við það þrengdist innsiglingin. Við höfum um tvo kílómetra af bryggjuplássi en það er svo mikil vegalengd að allir eyjarskeggjar gætu raðað sér upp á bryggjunni og myndað óslitna röð á bryggjukantinum," segir Arnar svolítið stoltur og bætir því við að íbúar eyjarinnar séu rúmlega fjögur þúsund í dag.
Skipum hefur fækkað með árunum, en á móti hafa þau stækkað svo við höfum virkilega þörf fyrir allt þetta pláss og jafnframt góða þjónustu við skipin. Bæði skemmtiferða og farskip. Menningartengd ferðaþjónusta er líka stöðugt að sækja í sig veðrið og í okkar tilfelli er þetta einstakt því það er svo margt við menninguna í Eyjum sem tengist höfninni. Stafkirkjan er til dæmis hérna við höfnina og húsið Landlyst, sem er fyrsta fæðingarstofnunin sem reist var á landinu og svo er náttúrlega umhverfið við höfnina, sem er stórskorið og einstaklega fallegt,"
segir Arnar og tekur um leið fram að daglega sé mikið líf við þessa höfn.
Herjólfur siglir til og frá landi tvisvar sinnum á dag og þá eru ónefnd fiski-, flutninga- og skemmtiferðaskipin. Því er um að gera að búa svo um að hér séu allar aðstæður til fyrirmyndar svo að hafnarlífið haldi áfram að blómstra eins og það hefur gert undanfarnar aldir," segir Vestmannaeyingurinn Arnar Sigurmundsson
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
| 28. september kl. 08.06 | eyjar.net |
Árni Johnsen alþingismaður
Bæjarstjórn Vestmannaeyja býður fyrirmynd að viðræðugrundvelli
grein í Morgunblaðinu í dag
EF KVÓTASKERÐING stjórnvalda á þorski samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar gengur eftir í þrjú ár eins og ætlað er a.m.k. þá nemur skerðing tekna og efnahagsleg áhrif um 10 milljörðum króna aðeins Vestmannaeyjum, þessari stærstu verstöð landsbyggðarinnar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja brást skjótt við og lét vinna mjög faglega úttekt á áhrifum skerðingarinnar og bauð síðan upp á viðræður við stjórnvöld til þess að flýta því að gripið yrði til mótvægisaðgerða og óvissa lágmörkuð. Bæjarstjórnin sendi mjög greinargóðar tillögur og hugmyndir til að vinna úr í slíkum viðræðum og þær voru síður en svo kröfuharðar.
Metnaðarfullar og bráðsnjallar hugmyndir
Þessar hugmyndir sem Elliði Vignisson bæjarstjóri kynnti vörðuðu Hafrannsóknastofnun, eflingu Matís ohf. í Eyjum, eflingu Fiskistofu í Eyjum, og uppbyggingu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Vestmannaeyjum. Einnig uppbyggingu þróunarseturs fyrir stafræna framleiðslutækni með tilliti til nýsköpunar í Vestmannaeyjum,uppbyggingu stofnunar Sæmundar fróða í Vestmannaeyjum, rannsókna- og fræðslustofnun um hvaðeina sem lýtur að sjálfbærri þróun og eflingu þverfræðilegs samstarfs og rannsókna innan Háskóla Íslands. Bæjarstjórn vakti athygli á því að Vestmannaeyjar sem stærsti útvegsbær á Íslandi hefur 30% hlutfall íbúa á bak við hvert opinbert starf í Vestmannaeyjum miðað við 14,6% á höfuðborgarsvæðinu. Þarna vilja bæjarstjórnarmenn hnykkja á með réttu.
Bæjarstjórn vill byggja upp miðstöð þorskrannsókna í Vestmannaeyjum í tengslum við rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum og veglegur vísir að þessu starfi er á siglingu til árangurs í samvinnu við Háskóla Íslands, Útvegsbændafélag Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabæ og Stjörnu-Odda.
Bygging stórskipaaðstöðu getur ekki beðið
Þá vill bæjarstjórn hefja nú þegar uppbyggingu stórskipahafnar í Eyjum, og enduruppbyggingu upptökumannvirkja sem urðu óvirk á síðasta ári þegar skipalyftan brotnaði með skip í sleða. Varðandi stórskipaaðstöðu liggur fyrir að næsta kynslóð flutningaskipa getur ekki nýtt sér þá hafnaraðstöðu sem er í Eyjum og slíkt gengur auðvitað ekki í stærstu verstöð landsins. Ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um að byggja Bakkafjöruhöfn og nýjan Herjólf en eftir stendur að uppfylla mjög afgerandi kosningaloforð um að ljúka forrannsóknum á jarðgangaleiðinni milli lands og Eyja. Fjármálaráðherra, 1. þingamaður Suðurkjördæmis, lofaði fyrir síðustu kosningar að þessu verkefni skyldi lokið, sama gerði núverandi viðskiptaráðherra, svo það er engin ástæða til þess að ætla að fjármálaráðherra hafi ekki forgang um efna loforðið og ljúka þessu verkefni til þess að eyða m.a. endalausri óvissu og kveða niður raddir um stórhættu í Vestmannaeyjum vegna mikillar eldvirknihættu. Kostnað má áætla um 60 milljónir króna. Þá vill bæjarstjórn efla framhaldsskólann í Vestmannaeyjum til muna á góðum grunni hans, og auk þess má nefna eflingu sýslumannsembættis sem gefur ýmsa möguleika, sérhæfingu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, verðbætur í menningarog náttúrufræðihúsi, að bæta við þriðju áætlunarferðinni í flugi og síðast en ekki síst bendir bæjarstjórn Vestmannaeyja á mikilvægi þess að koma til aðstoðar einstökum útgerðum í endurmati á rekstrarforsendum við breyttar aðstæður. Þá telur bæjarstjórn brýna nauðsyn að leggja af byggðakvóta, línuívilnun og skerðing vegna samdráttar í rækju- og skelveiðum verði með öllu aflögð auk þess að veiðileyfagjaldið verði með öllu aflagt og til vara að gjaldið renni í viðkomandi sjóði sveitarfélaga til þess að mæta gríðarlegri tekjuskerðingu.
Þá hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja fjallað um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, fjármagnstekjuskatt og ýmis fleiri atriði.
Grundvallaratriðið er auðvitað að stjórnvöld ræði þessi mál við sveitarfélög landsins. Engar mótvægisaðgerðir eru í raun marktækar áður en til slíkra viðræðna kemur. Fyrst þarf að velja verkefnin, áætla kostnað og forgangsraða, síðan taka af skarið. Vandinn er stór, en verkið þarf að vinna. Þessa vinnu væri hægt að vinna í stærstu dráttum á 6-8 vikum með festu og drifkrafti yfir landið allt með því að nýta stjórnmálamenn frá
Alþingi og sveitarfélögunum til fulls.
Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
| 28. september kl. 07.29 | eyjar.net |
Ný heimasíða ibvfan.is
Ný og glæsileg heimasíða ibvfan opnar í dag, síðan er gerð af vef fyrirtækinu Tónaflóð (http://www.tonaflod.is/). Er þetta mikil búbót fyrir stuðningsmannafélag ÍBV sem einbeitir sér af fótbolta og handbolta og er þetta fréttaveita fyrir stuðningsmenn og konur.
Ibvfan.is stóð fyrir beinum útsendingum í tilraunaskyni á netinu í sumar frá leikjum ÍBV í 1.deild og gekk það vel og unnið er að því að hafa beinar lýsingar í handboltanum í vetur.
Nokkrir fréttamenn munu skrifa pistla og fréttir inn á síðuna þar má nefna.
Sverrir Júlíusson hjá Háköllunum. Gilli Hjartar (Bloggari ) Sigurður Ingi ( fótboltamaður ) Írena Þórarinsdóttir ( Áhugamaður um Fótbolta )
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 (breytt 29.9.2007 kl. 00:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Friðrik Stefánsson á leið í hjartaþræðingu
Landsliðsmiðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson mun ekki leika með Njarðvíkingum í kvöld í undanúrslitum Poweradebikarkeppninnar í körfuknattleik. Friðrik dvaldi stutt á sjúkrahúsi eftir leik Njarðvíkur og ÍR síðasta sunnudag en hann hefur verið að finna til í hjarta þegar hann hefur verið að leika körfuknattleik.
Friðrik verður ekki með Njarðvíkingum í kvöld þegar liðið mætir Snæfellingum þar sem leikmaðurinn á að fara í hjartaþræðingu á þriðjudag þar sem kannað verður enn frekar hvað ami að. ,,Það hefur verið vesen í hjartalokum hjá mér sem veldur því að hjartað nær ekki að dæla nægilegu blóði til útlimanna. Eftir leikinn gegn ÍR á sunnudag dvaldi ég á sjúkrahúsi sökum þessa, sagði Friðrik í samtali við Víkurfréttir.
,,Ég hef fundið fyrir þessu þegar ég hef verið að spila en það er ekki von á því að ég fari að hníga niður í leik. Engu að síður fékk ég ekki grænt ljós til þess að spila í kvöld. Ég hef verið frá æfingum síðan eftir leikinn gegn ÍR, sagði Friðrik en bætti því við að of snemmt væri að segja til um nákvæmlega hver staða mála væri og að haldbærari upplýsingar væri að vænta að hjartaþræðingu lokinni.
Friðrik verður á bekknum í kvöld og verður Teiti Örlygssyni innan handar svo þeir félagarnir ættu að geta komið fram með illviðráðanlegt leikskipulag enda rúmlega 200 landsleikja reynsla á baki þeirra samanlögð.
Mynd: Gunnar Freyr Steinsson gunni@mikkivefur.is Friðrik situr á gólfi Ljónagryfjunnar á þarsíðustu leiktíð þar sem hann féll í vægt yfirlið í leik Njarðvíkur og ÍR í úrslitakeppninni. Á myndinni er Friðrik sestur upp og er að jafna sig. Friðrik sagði í samtali við Víkurfréttir að á þessum tíma hefði hann ekki áttað sig á því hvað hefði gerst. vf.is
27. september kl. 15.45 | mbl.is |
Friðrik fyrirliði Njarðvíkinga í hjartaaðgerð
Friðrik Stefánsson fyrirliði úrvalsdeildarliðs Njarðvíkur og miðherji íslenska landsliðsins er á leið í hjartaaðgerð á næstu dögum. Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta. Hann mun því ekki leika með Njarðvíkingum í undanúrslitum Powerade-bikarkeppninnar í kvöld gegn Snæfell.
Ég fer í aðgerð um miðja næstu viku en ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvað er að mér. Þetta lýsir sér með þeim hætti að ég fæ mjög öran hjartslátt og síðan líður yfir mig. Ég hélt í fyrstu að þetta væri ofþornun eða eitthvað álíka en eftir leik gegn ÍR um s.l. helgi fór ég á spítala og lét rannsaka þetta betur," sagði Friðrik við mbl.is nú rétt í þessu.
Í kjölfarið fór ég beint í rannsóknir og hjartalæknirinn sem hefur skoðað mig að undanförnu vonast til þess að ég geti farið að spila fljótlega eftir þessa aðgerð," sagði Friðrik í dag en er 31 árs gamall.
Nánar verður rætt við Friðrik í Morgunblaðinu á morgun.
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 (breytt kl. 22:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27. september kl. 14.50 | eyjar.net |
Verslunarballið 2007 í Höllinni 13.október næstkomandi
-Vinir Vors og Blóma leika fyrir dansi.
Það styttist í hið sí vinsæla verslunarball 2007 en það verður haldið í Höllinni þann 13.október næstkomandi. Ekki er langt síðan að verslunarballið var endurvakið og er það orðið fastur liður í skemmtanadagskrá eyjamanna.
Í ár eru það Vinir Vors og Blóma sem leika fyrir dansi og veislustjórn verður í höndum Atla úr Strákunum og Bryndísar Ásmunds. Sæþór Vídó og Arndís Ólöf taka lagið og einnig mun Ingó Idol koma fram.
Verð fyrir mat og ball er 5500 kr.
Ball kr 2500 - húsið opnar á miðnætti.
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28. september kl. 20.21 | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
1. deild | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
Eyjamenn fögnuðu sigri en sitja eftir með sárt ennið | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
| ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
Eyjamenn sitja eftir með sárt ennið í 1. deild og sjá á eftir Fjölni, Þrótti og Grindavík upp þrátt fyrir að hafa lagt öll þessi lið að velli síðustu vikur. Eyjamenn unnu síðasta leik sinn í 1. deildinni með því að leggja Fjölni að velli, 4:3 í bráðskemmtilegum leik en það dugði ekki til því á sama tíma vann Þróttur Reyni Sandgerði 0:4. Eyjamenn enduðu því í fjórða sæti, aðeins einu stigi frá því að komast upp í úrvalsdeild.
Eyjamenn byrjuðu af miklum krafti í rigningunni á Hásteinsvellinum og hreinlega óðu í færum í fyrri hálfleik. Ingi Rafn Ingibergsson kom ÍBV yfir með laglegu marki á 6. mínútu og áfram hélt stórsókn ÍBV áfram. En upp úr þurru jöfnuðu gestirnir metin á 17. mínútu eftir klaufagang í vörn ÍBV. Atli Heimisson sá hins vegar til þess að ÍBV væri yfir í hálfleik þegar hann kom heimamönnum í 2:1 á 33. mínútu. Síðari hálfleikur var svo mun daufari framan af. Fjölnismenn jöfnuðu metin með glæsilegu langskoti á 59. mínútu. Og það var eins og Eyjamenn væru enn að jafna sig því aðeins mínútu síðar komust gestirnir yfir 2:3 eftir að vörn ÍBV opnaðist upp á gátt. En í stað þess að leggja árar í bát blésu Eyjamenn í lúðrana á ný og hófu að sækja af krafti. Fyrirliðinn Bjarni Hólm Aðalsteinsson jafnaði metin á 68. mínútu og Ian Jeffs innsiglaði svo sigur ÍBV fjórum mínútum síðar, lokatölur 4:3. Það er í raun grátlegt að ÍBV skuli ekki hafa komist upp í úrvalsdeild því spilamennska liðsins í síðari umferð Íslandsmótsins hefur verið með miklum ágætum og gott betur. Þannig misstigu Eyjamenn sig aðeins einu sinni og það nokkuð illa, gegn Leikni á heimavelli þegar þeir töpuðu 1:2 og segja má að úrvalsdeildarsætið hafi fokið um leið út um gluggann. En níu sigurleikir, eitt jafntefli og einn ósigur í seinni hlutanum er vel ásættanlegt og því hljóta menn að horfa á fyrri hluta mótsins sem sökudólg. Nú þurfa forráðamenn hins vegar að hefja undirbúningsvinnu fyrir næsta tímabil sem fyrst. Flestir leikmanna ÍBV eru með áframhaldandi samning en semja þarf við hina, m.a. Andra Ólafsson. Þá er Ian Jeffs samningsbundinn Örebro þar til eftir næsta tímabil í Svíþjóð. Sænska liðið skipti um þjálfara og sjálfsagt vill Jeffsy reyna fyrir sér hjá nýjum þjálfara í sænsku úrvalsdeildinni. Hann hefur hins vegar skilað góðu verki fyrir ÍBV og óskandi ef hann yrði áfram. Heimir Hallgrímsson, þjáflari liðsins var að klára fyrsta árið af þriggja ára samningi og vonandi heldur hann áfram með liðið. Lokastaðan:
|
28. september kl. 19.14 | eyjar.net |
ÍBV ekki í úrvalsdeildinni að ári
-enduðu með 44 stig, 1 stigi eftir Þrótti sem fór upp um deild
Þá er fótboltasumarið á enda og það orðið staðreynd að ÍBV verður ekki í Landsbankadeildinni að ári. Það verða Grindavík, Fjölnir og Þróttur sem fara upp um deild.
ÍBV á Hásteinsvelli við Fjölnismenn sem voru fyrir leikinn öruggir upp um deild og því að litlu að keppa fyrir Fjölnismenn nema heiðurinn einn að vinna ÍBV á heimavelli| 28. september kl. 07.17 | eyjar.net |
28. september kl. 10.09 | ||
1. deild karla: | ||
Fjölnismenn mættir til Eyja | ||
| ||
Í dag klukkan 17.15 leikur ÍBV gegn Fjölni í síðasta leik 1. deildar en möguleiki á sæti í úrvalsdeild felst í sigri og að Reynir Sandgerði leggi Þrótt að velli. Allir leikir umferðarinnar fara fram á sama tíma og lið verða því að mæta til leiks, ekki er möguleiki að fresta leiknum. Hins vegar er svarta þoka í Vestmannaeyjum eins og er en Fjölnismenn höfðu vaðið fyrir neðan sig og komu í gærkvöldi með Herjólfi og samkvæmt heimildum vefsins var einhver sjóveiki í hópnum.
Hins vegar er dómaraparið enn ekki komið og mun væntanlega koma með fyrri ferð Herjólfs í dag en ekki er útlit fyrir flug. Stuðningsmönnum ÍBV er boðið á leikinn en Glitnir og Fasteign sjá um að stuðningur við ÍBV liðið verður sem bestur. |
Eyjamenn ætla að fjölmenna á leik Reynis og Þróttar
Um hundrað stuðningsmenn ÍBV sem eru búsettir í Reykjavík ætla að fjölmenna á Sparisjóðsvöllinn í Sandgerði í dag og hvetja Reynismenn gegn Þrótti.
Á heimasíðu Sandgerðisbæjar er haft eftir Sverri Júlíusyni í stuðningsmannafélagi ÍBV í Eyjum að 100 manns hafi staðfest þátttöku sína og að tvær rútur muni fara með Eyjamenn á leikinn.
Þróttarar geta með stigi í leiknum tryggt sér sæti í Landsbankadeildinni að ári og því ætla Eyjamenn að styðja Reynismenn í leiknum.
Á sama tíma í dag eða klukkan 17:15 mætir ÍBV liði Fjölnis í Eyjum en Eyjamenn eru þremur stigum á eftir Þrótti og þurfa því að leggja Fjölni og vona að Reynismenn vinni Þrótt.
27. september kl. 10.29 | eyjar.net |
Frítt á völlinn á morgun föstudag
ÍBV - Fjölnir kl 17:15
Á morgun föstudag er síðasti heimaleikur sumarsins hjá meistaraflokki ÍBV en það eru Fjölnismenn sem koma í heimsókna til eyja og leika liðin á Hásteinsvelli klukkan 17:15.Fyrr um daginn eða klukkan 15:00 er lokahóf yngri flokka ÍBV í knattspyrnu í Íþróttamiðstöðinni. Eftir lokahófið mun svo Þorkell Sigurjónsson taka fyrstu skóflustunguna að nýju knattspyrnuhúsi.
ÍBV á enn möguleika að komast upp í úrvalsdeild og verða þeir að sigra Fjölni á morgun og vona að Reynir Sandgerði sigri Þrótt. Mikilvægt er að eyjamenn fjölmenni á völlinn á morgun og ætla Glitnir og Fasteign að bjóða frítt á völlinn.
Styðjum strákana í þeirra síðasta heimaleik sumarsins.
ÁFRAM ÍBV
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
| 27. september kl. 07.09 | eyjar.net |
Aðalfundur Eyverja var haldinn í Ásgarði í gærkvöldi.
Margrét Rós Ingólfsdóttir endurkjörin formaður
Á fundinum var auk þess kosið í trúnaðarstöður flokksins fyrir hönd Eyverja, lög Eyverja samþykkt og fleira. Nýkjörin stjórn Eyverja vill koma því á framfæri að ekkert verður slakað á í starfinu og Eyverjar koma til með að sanna það enn og aftur hversu öflug ungliðahreyfing félagið er.
Ný stjórn Everjar er þannig skipuð:
Margrét Rós Ingólfsdóttir var endurkjörin formaður Eyverja en nýja stjórn Eyverja skipa auk Margrétar, Silja Rós Guðjónsdóttir varaformaður, Sindri Viðarsson gjaldkeri og Ragna Kristín Jónsdóttir ritari. Meðstjórnendur voru kjörnir Bjarni Halldórsson, Bragi Magnússon, Finnbogi Friðfinnsson, Haraldur Pálsson, Helena Björk Þorsteinsdóttir, Leifur Jóhannesson og Óttar Steingrímsson.
Stjórn Eyverja hvetur jafnframt alla þá sem hafa áhuga á því að starfa með félaginu að setja sig í samband við stjórnarmeðlimi
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
| 26. september kl. 20.30 | eyjar.net |
Íslandsmótið hefst um helgina hjá 8.flokk
Körfubolti
Um helgina hefst íslandsmótið hjá yngri flokkunum. Vilja leikmenn 8.flokks koma skilaboðum áleiðis til allra stuðningsmanna, foreldra, ættingja og vina en þau eru skýr. Vilja þau biðja alla um að láta sjá sig uppí íþróttahúsi um helgina og styðja vel við sitt lið þegar 8.flokkur spilar við fjögur mjög sterk lið í b styrkleikariðli.
Leikjaniðurröðun er eftirfarandi:
Laugardagur 29.september
10:00 Fjölnir - Hamar
11:00 ÍBV - Breiðablik
12:00 Grindavík - Hamar
13:00 Fjölnir - Breiðablik
14:00 ÍBV - Grindavík
Sunnudagur 30.september
09:30 Breiðablik - Hamar
10:30 Fjölnir - Grindavík
11:30 ÍBV - Hamar
12:30 Grindavík - Breiðablik
13:30 ÍBV - Fjölnir
Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26. september kl. 18.59 | ||||
Ómar Garðarsson skrifar: | ||||
Hvers eigum við að gjalda? | ||||
-Fagnar ályktun aðalfundar Útvegsbændafélags Vestmannaeyja. | ||||
En einn skuggi hvílir yfir þessu öllu saman, það er aðför stjórnvalda að Vestmannaeyjum. Fréttir hafa bent á í mörg ár hvernig atvinna og tekjur hafa verið færðar héðan með handafli í formi aflaheimilda sem hafa verið færðar öðrum án endurgjalds, segir Ómar Garðarsson ritstjóri m.a. í grein sem hann kallar Vestmannaeyjar tækifærana. Er hann bjartsýnn á framtíðina en er ósáttur við handaflsaðgerðir í fiskveiðistjórnun. Stundum hafa þessi skrif Frétta verið eins og rödd hrópandans í eyðimörkinni, það var eins og öllum hafi staðið á sama, ekki síst stjórnmálamönnum, þegar lífsbjörgin var rifin af okkur.
Nánar í Fréttum í grein sem Ómar kallar, Vestmannaeyjar tækifæranna. |
Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26. september kl. 18.35 | ||||
Ingibjörg Arnarsdóttir í opnuviðtali í Fréttum | ||||
Mikilvægt fyrir fólk að sjá að konur spila líka í efstu deild | ||||
| ||||
Fyrr á þessu ári tók Frjáls verslun saman lista yfir hundrað áhrifamestu konur í íslensku viðskiptalífi. Ingibjörg Arnarsdóttir er ein þessara kvenna en hún starfaði í sex ár sem framkvæmdastjóri hjá Karli K. Karlssyni sem er ein stærsta heildverslun landsins.
Hún söðlaði um í sumar og starfar nú sem lánastjóri í höfuðstöðvum Glitnis. Ingibjörg er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, dóttir hjónanna Arnars Sighvatssonar frá Ási og Soffíu Björnsdóttur frá Bólstaðarhlíð. Hún er gift Ólafi Þór Gylfasyni og þau eiga tvö börn.
Nánar í Fréttum. |
Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26. september kl. 16.18 | ||
Elliðaeyingar sjá um lundaballið í ár: | ||
Önnur lundaböll eins og upphitun fyrir ballið eina sanna | ||
-segir Ívar Atlason sem lofar hóflegu gríni þannig að enginn þurfi að rjúka út | ||
Nú nálgast Lundaballið sem er einn af stóru viðburðunum í Vestmannaeyjum. Lundaballið verður í Höllinni á laugardaginn þar sem verður mikið um dýrðir og stefnir í góða aðsókn. Nú er komið að Elliðaeyingum að standa fyrir Lundaballinu en sagan hefur sýnt að ekkert úteyjafélag stendur þeim á sporði þegar kemur að því að halda lundaball.
Fréttir tóku hús á Ívari Atlasyni, Elliðaeyingi, sem nú er að, nótt sem nýtan dag, við að undirbúa ballið sem á sér orðið áratuga hefð. Já, við skiptumst á að halda lundaböllin en hvert félag leggur til ákveðið magn af lunda, fer það eftir stærð eyjanna og venjan er að félagið, sem haldur ballið, leggur ríflega í púkkið," sagði Ívar.
|
Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26. september kl. 16.06 | ||||
Frægð, frami, niðurlæging og upprisa í Kristi | ||||
Á ferðalagi undan dauðanum | ||||
Athyglisvert viðtal við Clifford Edwards, 62 ára gamlan Bret | ||||
Margir hafa eflaust tekið eftir blárri tveggja hæða rútu sem lagt hefur verið hér og þar um bæinn síðustu daga. Hún er skreytt kristilegum skilaboðum þar sem -Jesús elskar þig, er einna mest áberandi. Bílstjórinn og eigandi rútunnar er Clifford Edwards, 62 ára gamall Breti sem átt hefur erfitt en jafnframt atburðaríkt lífshlaup.
Hann hefur upplifað allt frá því að lifa í ríkidæmi sem frægur söngvari og lifa á götunni til 20 ára. Nú dvelst hann í þeim farakosti sem býðst þá stundina og lætur Jesús leiða sig áfram á ferð sinni. Ætlaði sér ekki að drekka Ég ætlaði mér aldrei að smakka vín," sagið Clifford en faðir hans var mikill drykkjumaður og gerði heimilislífið nánast óbærilegt fyrir fjölskylduna. Þegar faðirinn kom heim af barnum um helgar fór fjölskyldan í langan göngutúr og kom ekki aftur fyrr en hann var farinn í rúmið til að sofa úr sér. Skólagangan var Clifford erfið því heimilisástandið hafði áhrif á frammistöðu hans og hann var því alltaf lægstur í bekknum. Kennararnir tóku hann oft fyrir eða börðu hann með kennaraprikum fyrir að standa sig illa. Ég var lagður í einelti af samnemendum og kennurum," segir Clifford sem var gefinn einstök söngrödd sem seinna gerði hann frægan og í skólanum var hann oft látinn syngja. Það olli öfund hjá samnemendum og var honum því mikið strítt. Yngri árin voru því enginn dans á rósum en hann hafði gaman af að syngja og byrjaði að syngja með kirkjukórnum um sjö ára aldur. Nítjá ára hóf hann að syngja á börum og skemmtunum og brátt bókaði hann sig á stærri stöðum og sá frægðina í hyllingum. Þá var það eitt kvöldið eftir sérstaka framkomu sem honum var boðið að skála í kampavíni sem hann þáði. Eftir það lá leiðin niður á við því honum líkaði það frelsi sem fylgdi áfenginu. Hann eignaðist mikið af peningum og vini sem alltaf voru til í að skemmta sér með honum en þegar hann datt af sviðinu sökum ölvunar var ferli hans skyndilega lokið. Peningarnir hurfu smám saman og vinirnir í kjölfarið svo leið hans lá í strætið með flöskuna sér við hlið. Ég var í strætinu, bjó í pappakössum rétt við Thamesánna. Fjölskylda mín reyndi að taka mig inná heimilið en ég var ekki húsum hæfur. Ég kunni ekki einu sinni að nota hníf og gaffal svo þau gáfust upp á mér og ég fór aftur í strætið," segir Clifford. Hann svaf á bekkjum undir berum himni, drakk og betlaði. Ég ætlaði að byrja uppá nýtt en það var enginn tilbúinn til að gefa mér tækifæri," segir Clifford. Hann hafði misst alla von og fannst hann vera einskis virði. Hann gerði margar tilraunir til að hætta að drekka og með hjálp afeitrunar á vegum Hjálpræðishersins tókst honum það í fjögur ár. Á þeim tíma, árið 1980, kynntist hann konu sem hann trúlofaðist og var mjög hamingjusamur. Það var ekki fyrr en hann fór í heimsókn til heimabæjar síns að fagna brúðkaupinu með ættingjum sínum og brúðhjónunum var gefin kampavínsflaska að gjöf að hann smakkaði vín aftur. Það var sama sagan, hann hafði enga stjórn á drykkjunni og var áður en hann vissi af orðinn dauðadrukkinn og búinn að missa tökin.
Hann var úrskurðaður dauðvona Árið 1996 fékk ég þann úrskurð að vera með óbætanlegar heilaskemmdir og lifrarskemmd. Ég átti sex mánuði ólifaða, ég átti enga von," segir Clifford. Hann hafði verið slappur og fór á endanum til læknis sem færði honum þessar fréttir. Það var ekki fyrr en þá að hann leitaði til guðs og bað hann um hjálp. Hann svaf eins og engill þessa nótt og daginn eftir þegar hann vaknaði fannst honum eitthvað hafa breyst. Hann var ennþá dauðvona en það truflaði hann ekki. Hann fór og fann sér landakort, opnaði það af handahófi og það var eins og einhver rödd innra með honum segði sér:
Farðu og syngdu á götum úti og segðu öllum sem tala við þig að ég elski þá og þrái að kynnast þeim betur." Hann fór af stað með eitt pund í vasanum sem er jafngildi 120 íslenskum krónum og Biblíuna. Honum var sagt að hann ætti tvær vikur eftir ólifaðar þegar hann hélt af stað í þriggja vikna ferðalag, það var árið 1996. Fyrst ferðaðist hann með lest en svo voru honum gefnir faraskjótar, bíldruslur, litlir sendiferðabílar og loks rútur. Árið 2001 greindist hann með krabbamein og það þurfti að skera í burtu stóran hluta af hálsinum á honum og svolítið af öxlinni. Honum voru enn á ný gefnar örfáar vikur en tíminn leið og dauðinn lét ekki sjá sig. Hann lét ekki deigan síga þrátt fyrir þennan dóm og hélt áfram að ferðast og syngja guðsorð fyrir alla sem heyra vilja. Hann ferðaðist um Bretlandseyjar endilangar, um Færeyjar, til Íslands og alla leið út að Síberíu. Í dag er hann að koma í annað skiptið til Íslands og jafnframt annað skiptið til Vestmannaeyja. Mér finnst frábært að koma til Vestmannaeyja, mér finnst eins og fólkið hér sé eins og fólk var fyrir fimmtíu árum. Ég held að allir sem búa á eyjunni hafi keyrt framhjá rútunni minni og í gær komu strákar að tala við mig og fengu að fara í bíltúr með mér. Hér er náttúran fögur en hún á ekkert í hve yndislegt fólkið er," segir Clifford.
Ekki á vegum kristni félags Það eru svo margir sem halda að ég sé fulltrúi einhvers safnaðar. Ég er ekki á vegum neins og ég er hvorki Lútherstrúar né kaþólskur eða nokkuð annað. Ég hef samt sem áður ekkert á móti söfnuðum en ég er bara óháður. Ég trúi á Jesús og Guð og ég er hér bara til að segja að hann elskar ykkur. Ég vil gefa fólki góðar minningar sem það síðan tengir við Jesús og ég hef ofsalega gaman af börnum. Ég leyfi þeim oft að kíkja uppúr topplúgunni á rútunni og það finnst þeim ógleymanleg upplifun," segir Clifford. Ævi hans hefur verið erfið en honum líður vel í dag. Hann á góða vini sem hlaupa ekki frá honum þegar peninga skortir og honum finnst tilveran brosa við sér. Hann vonar að fleiri Vestmannaeyingar heimsæki sig í rútuna áður en hann fer héðan því hann hefur gaman af gestum og er til í að spjalla við hvern sem er um hvað sem er. Hann segist oft hafa hjálpað fólki með að hlusta á slæma hluti sem það hefur borið í farteskinu og gefið þeim frelsi. Hann segist aldrei leggja þessa hluti á minnið því það er ekki hans að dæma, hans er bara að hlusta og reyna að hjálpa. Þó áfangastaðurinn sé ekki alltaf ákveðinn, né dvalartíminn er hann mjög ánægður með sitt hlutverk. Hann lýsir því svo: Lífsverk mitt er einmanalegt en ég er aldrei einn." |
Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26. september kl. 15.31 | eyjar.net |
Vinnslustöðin hefur gerst aðili að yfirlýsingu um ábyrgar fiskveiðar
Gefin hefur verið út yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar á Íslandi. Að yfirlýsingunni standa aðilar í íslenskum sjávarútvegi; Sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnunin, Fiskistofa og Fiskifélag Íslands.
Yfirlýsingin er liður í því að koma á framfæri upplýsingum um hvernig staðið er að fiskveiðum á Íslandi. Kröfur markaða um upplýsingar og staðfestingu á því að fiskur sé veiddur með ábyrgum hætti hafa aukist talsvert á undanförnum árum og er yfirlýsingin liður í að bregðast við því. Í yfirlýsingunni er farið yfir meginþætti íslensks fiskveiðistjórnunarkerfis og hvernig íslensk fiskveiðistjórnun stuðlar að ábyrgum veiðum og sjálfbærri nýtingu fiskistofna.
Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
| 26. september kl. 11.45 | eyjar.net |
Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun
11,4 milljónir kr til Vestmannaeyja
Á spjallborði www.eyjar.net hafa komið upp nokkrar áhugaverðar hugmyndir í nýsköpun tengdum Vestmannaeyjum. Eitt er að fá góða hugmynd og annað er að hrinda henni í framkvæmd og finna fjármagn til þess að koma hlutunum af stað.
www.eyjar.net sendu nokkrar spurningar á Hrafn Sævaldsson ráðgjafa hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og spurðum Hrafn út í Vaxtarsamning Suðurlands og Vestmannaeyja.
Svör Hrafns birtast hér fyrir neðan:
Hvert er markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja?
-Markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja (VSSV) eru eftirfarandi:
- Að efla Suðurland sem eftirsóttan valkost til búsetu.
- Að auka samkeppnishæfni svæðisins og efla hagvöxt.
- Að þróa og styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu.
- Að fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vörum og þjónustu.
- Að nýta möguleika sem skapast með aðild að alþjóðlegum verkefnum.
- Að laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu.
Eru mörg verkefni sem hafa fengið styrk og eru staðsett í Vestmannaeyjum?
- Á þessu fyrsta starfsári samningsins hefur verið úthlutað 38,7 mkr. fyrir árið 2007 og 4,0 mkr. fyrir árið 2008. Samtals 42,7 mkr. 16 Verkefni hafa verið styrkt, 4 verkefnum hefur verið hafnað og fjöldi verkefna er í vinnslu á öllu Suðurlandi.
- Samtals hafa verið samþykkt framlög til 5 verkefna að upphæð 11,4 mkr til Vestmannaeyja á árinu 2007. Fjöldi verkefna er í umsóknarferli eða er á teikniborðinu. Þau verkefni sem fengið hafa stuðning frá samningnum eru:
1.Uppbygging söguseturs um Tyrkjaránið 1627, Tyrkjaránssetur. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa. VSSV styrkir verkefnið um 750.000. kr..
2. Efling Rannsókna- og háskólastarfs í Eyjum. Verkefnið er flokkað innan Mennta- og rannsóknaklasa. VSSV styrkir verkefnið um 3,0 mkr.
3. Verðmætaaukning sjávarfangs, humarklær, vöruþróun
Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV styrkir verkefnið um 3,75 mkr.
4. Köfunarskóli í Vestmannaeyjum. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa. VSSV styrkir verkefnið um 2,5 mkr.
5. Aukin arðsemi humarveiða: Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV samþykkti stuðning við verkefnið á 1. ári, samtals 1,4 mkr, auk þess sem ráðið lýsti yfir áhuga á frekari stuðningi við verkefnið í framhaldinu á verkefninu.
Hvernig er umsóknarferlinu háttað?
-Atvinnuþróunarfélag Suðurlands er framkvæmdaraðili samningsins og hefur félagið skrifstofu í Hvíta húsinu svokallaða að Strandvegi 50 í Vestmannaeyjum. Ef fólk telur sig hafa eitthvað áhugavert verkefni fram að færa, mælum við með því að það kynni sér starfsemi klasa og vaxtarsamninga á heimasíðu Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja, www.vssv.is., mjög góðar upplýsingar er þar að finna um allt sem við kemur samningnum og framkvæmd hans. Þar er að finna m.a. fundargerðir framkvæmdaráðs, en ráðið tekur afstöðu til innsendra umsókna. Til að átta sig betur á umsóknarferlinu, er ágætt að lesa umsagnir um fyrri umsóknir. Að sjálfsögðu getur fólk alltaf haft samband og komið við á skrifstofu félagsins, hvort heldur í Vestmannaeyjum eða á Selfossi. Starfsmenn félagsins veita áhugasömum aðilum handleiðslu í gegnum ferlið, fólki að kostnaðarlausu.
Á www.eyjar.net/spjall eru nokkrar áhugaverðar atvinnuhugmyndir, telurðu að það sé möguleiki fyrir þær að sækja um styrk?
- Við hvetjum þá aðila sem telja sig hafa eitthvað fram að færa að koma sér í samband við okkur. Oft á tíðum er um góðar hugmyndir að ræða, en missa flugið þegar það á að koma hugmyndunum í framkvæmd. Því hefur handleiðsla okkar í upphafi og í framhaldinu verið mörgum mikilvæg aðstoð. Hugtakið "miði er möguleiki" á vel við í umræðunni um þessi mál, ef fólk hefur verið með einhverja hugmynd í maganum í langan tíma hvetjum við það til að gera eitthvað í málinu, fyrsti staðurinn til að ræða málin getur verið hjá okkur.
Hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda
- Skilyrði fyrir fjárstuðningi VSSV er að viðkomandi verkefni tengist uppbyggingu klasa, svo sem stuðningi við stofnun tengslanets, fræðslu og þjálfun, rannsókna- og greiningarvinnu, ráðgjöf eða sameiginleg þróunar- og samstarfsverkefni sem metin eru í hverju tilfelli. Ekki er heimilt að veita styrki til fjárfestinga í fyrirtækjum eða reksturs fyrirtækja eða opinberra stofnana, auk þess sem stofnkostnaður er ekki styrkhæfur.
Hversu oft er styrkjum útdeilt á ári og hversu mikið
-Tekið er á móti umsóknum til VSSV allt árið. Framkvæmdaráð samningsins tekur síðan afstöðu til umsóknanna. Ráðið fundar 10 - 12 sinnum á ári og oftar ef þurfa þykir, allt eftir fjölda umsókna sem liggja fyrir.
- Atvinnuþróunarfélag Suðurlands veitir síðan smástyrki, einskonar hvatningastyrki, einu sinni til tvisvar á ári. Undanfarin ár hefur verið úthlutað einu sinni á ári að vori til. Í ár verður hins vegar úthlutað styrkjum tvisvar sinnu, fyrra skiptið var s.l. vor og síðan er umsóknarfrestur að renna út n.k. föstudag, 28. september vegna hauststyrkja félagsins. Úthlutað verður 5 milljónum til áhugaverðra verkefna að þessu sinni. Styrkirnir hafa verið á bilinu 100 - 350 þúsund króna. Umsóknirnar eru metnar út frá ýmsum fyrirframskilgreindum þáttum. Styrkirnir hafa verið auglýstir vandlega í fjölmiðlum á Suðurlandi í mánuð, en frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins www.sudur.is Heildarstyrksupphæð sem Atvinnuþróunarfélagið mun veita á þessu ári verður því um 10 mkr.
Hjálpið þið fólki við að útfæra atvinnuhugmyndir
- Já, eins og bent hefur verið á hér að ofan veitum við áhugasömum aðilum endurgjaldslausa aðstoð við framgang hugmynda sinna. Við bendum á heimasíðu Atvinnuþróunarfélag Suðurlands www.sudur.is og heimasíða VSSV www.vssv.is .
www.eyjar.net þakkar Hrafni kærlega fyrir svörin og hvetur eyjamenn með hugmyndir að hafa samband við Hrafn og starfsfólk Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.
Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
| 26. september kl. 11.30 | eyjar.net |
Helstu verkefni lögreglu frá 17. til 24. september 2007.
Fjögur tilvik vegna brota á umferðarlögum
Lögreglan hafði í nógu að snúast í sl. viku og þá sérstaklega um helgina enda stóð þá yfir rannsókn á kæru vegna meintrar nauðgunar. Þegar hefur verið gerð grein fyrir því máli í fjölmiðlum.
Ein eignaspjöll voru tilkynnt lögreglu í vikunni en um var að ræða skemmdir á niðurfallsröri frá þakrennu við Brekastíg 1. Leikur grunur á að þarna hafi verið börn að leik.
Lögreglu var tilkynnt um að handtösku hafi verið stolið úr kvennaklefa Íþróttamiðstöðvarinnar um kvöldmatarleitið þann 18. sept. sl. Um er að ræða tösku úr svörtu gerfileðri, skreytta með stjörnum, krossum og tíglum. Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hvar töskuna er að finna eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Fjögur tilvik vegna brota á umferðarlögum kom til kasta lögreglu í sl. viku. Í tveimur tilvikum var um að ræða árekstur þar sem sá er tjóninu olli fór í burtu án þess að tilkynna um óhappið. Í fyrra tilvikinu var að ráð óhapp þann 18. sept. sl. á milli kl. 13:00 og 16:00 á bifreiðastæði við Framhaldsskólann. Seinna tilvikið var tilkynnt þann 21. sept. sl. en óljóst er hvar eða hvenær það átti sér stað.
Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur en hann mældist á 85 km/klst. á Dalavegi en þar er hámarkshraði 60 km/klst. Þá var einn ökumaður kærður fyrir að tala í farsíma í akstri án þess að nota handfrjálsan búnað.
Eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu í vikunni en um var að ræða fjögurra bifreiða árekstur á Strembugötu þann 18. september sl. Þarna hafi bifreið verið ekið norður Strembugötu með þeim afleiðingum að hún lenti á bifreið sem var kyrrstæð við Höllina þannig að hún kastaðist fram og á aðra bifreið sem var kyrrstæð þar fyrir framan. Þriðja bifreiðin lenti síðan á fjórðu bifreiðinni, sem einnig var kyrrstæð. Ekki urðu alvarleg slys á fólki en nokkðu tjón varð á bifreiðunum.
Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25. september kl. 17.48 | ||||
| ||||
Fyrsta skóflustunga að nýju knattspyrnuhúsi tekin á föstudag | ||||
Þorkell Sigurjónsson tekur fyrstu skóflustunguna ásamt 20 krökkum | ||||
Það verður sannkallaður hátíðisdagur hjá ÍBV-íþróttafélagi á föstudaginn en hápunkturinn er sjálfsagt fyrsta skóflustungan að nýju knattspyrnuhúsi en Þorkell Sigurjónsson, stuðningsmaður ÍBV númer eitt og mikill áhugamaður um húsið mun taka fyrstu skóflustunguna ásamt tuttugu iðkendum félagsins. Þá lokahóf yngri flokka fara fram fyrr um daginn, karlalið ÍBV í knattspyrnu leikur síðasta leik sinn og síðast en ekki síst verður lokahóf eldri flokka í Höllinni um kvöldið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem ÍBV birtir á heimasíðu sinni en fréttatilkynninguna má lesa hér að neðan: N.k. föstudagur verður stór dagur í sögu ÍBV Íþróttafélags. Í fyrsta lagi verður lokahóf yngri flokka félagsins í knattspyrnu í sal 2 í Íþróttamiðstöðinni, hófið hefst kl.15.00. Strax að loknu hófinu kl. 16.30, mun verða tekin fyrsta skóflustunga að nýju knattspyrnuhúsi, sem rísa mun vestan við Týsheimili. |
Dægurmál | Miðvikudagur, 26. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25. september kl. 18.15 | ibv.is |
Bæjarstjórinn farinn að þjálfa hjá ÍBV
Bæjarstjórinn okkar, hann Elliði Vignisson verður aðstoðarmaður Unnar Sigmarsdóttur þjálfara 6.fl. drengja í vetur. Hann var hér áður fyrr öflugur handknattleiksmaður, þó ekki næði hann jafn langt í íþróttinni og yngri bróðirinn Svavar, sem enn er í fullu fjöri.
Elliði á auðvitað rétt á nokkrum launum fyrir starf sitt, eins og aðrir. Hann vill hins vegar láta þá upphæð renna til íþróttakrakka í yngstu flokkum, sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með, að komast í keppnisferðir með félögum sínum. Frábært framtak hjá Elliða, og til fyrirmyndar í íþróttastarfi.
Dægurmál | Miðvikudagur, 26. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
+
25. september kl. 09.38 | eyjar.net |
Gróska í fasteignaviðskiptum í Vestmannaeyjum
Þrír fasteignasalar í eyjum
Eyjamenn hafa líklega slegið Íslandsmet í fjölda fasteignasala á hvern íbúa, en í eyjum eru nú starfandi þrír fasteignasalar og eftir því að dæma er mikil gróska í fasteignaviðskiptum í eyjum. Fasteignaverð hefur hækkað að undanförnu í framhaldi af aukinni eftirspurn eftir fasteignum í eyjum.
www.eyjar.net sendi spurningar á alla fasteignasala í Vestmannaeyjum og birtum við svör þeirra hér að neðan:
Svör Helga Bragasonar http://www.eign.net/
Hversu mikið hefur fasteignamarkaðurinn stækkað í eyjum síðustu 12.mánuði
Árið 2003 seldust 66 eignir í Eyjum, 54 árið 2004, 113 árið 2005, 109 árið 2006 og 115 hafa selst það sem af er þessu ári.
Gerið þið ráð fyrir áframhaldandi vexti eða samdrætti í fasteignasölu í eyjum á næstu mán.?
Ég held að markaðurinn sé kominn í ákveðið jafnvægi í bili og verðleiðrétting hafi átt sér stað og við verðum að selja þetta í kringum 10 eignir á mánuði að meðaltali næstu misseri. Þrátt fyrir að verðleiðrétting hafi átt sér stað þá er meðalverð fasteigna í Eyjum ennþá undir 100.000 kr. Per fermeter en meðalverð sérbýlis í Rvk. árið 2007 er c.a. 235.000, á Akureyri c.a. 165.000 og í Árborg c.a. 160.000
Hvaða form húsnæðis eru hvað vinsælust hjá fasteignakaupendum?
Það hefur verið mikil aukning á sölu eigna í fjölbýli sem eru einkum þá vestur í bæ og eignir í fjölbýlishúsunum nær bænum eru einnig vinsælar og seljast yfirleitt um leið og þær koma í sölu td. seldust 61 íbúð í fjölbýli árið 2006. Góð einbýli og raðhús eru einnig vinsæl og hafa selst fljótt. Svo er mikill áhugi á eignum í Baldurshagahúsinu og þegar búið að selja nokkrar.
Hver er söluþóknun ykkar fyrir einkasölu með skatti og gjöldum?
Samkvæmt nýrri verðskrá þá eru sölulaun í einkasölu 1,2% og gerist ekki lægra í Vestmannaeyjum við þetta bætist virðisaukaskattur. Fyrir þetta færðu aðgang að þjónustu tveggja lögmanna og tveggja löggiltra Fasteignasala sem hafa langmesta reynslu af öllum þeim fasteignasölum sem starfa í Vestmannaeyjum í dag. Fasteignasala er ekki eins og bílasala og krefst fagmennsku. Fasteignasalar á Fasteignasölu Vestmannaeyja hafa selt lang flestar eignir af þeim sem eru starfandi í Eyjum í dag. Þú færð því mestu þekkinguna, reynsluna og gæðin fyrir ódýrast verð, allt fyrir viðskiptavini okkar.
Hefur verið jafnmikill vöxtur í sölu atvinnuhúsnæða í eyjum og í almennum fasteignum?
Það hefur verið aðeins aukning í sölu atvinnuhúsnæðis en ekki eins mikil og í sölu íbúðarhúsnæðis.
Telurðu að verðgildi fasteigna muni hækka með bættum samgöngum til eyja?
Já alveg örugglega, með bættum samgöngum opnast svo margir möguleikar m.a. hvað varðar atvinnu og almennt frelsi fólks. Eins og segir í lið 2 hér að framan er meðalverð sérbýlis í Eyjum næstum því helmingi minna en í Árborg!! hvort finnst þér skemmtilegri eða fallegri staður Vestmannaeyjar eða Árborg ég tala nú ekki um eftir nýtt útivistarsvæði og íþróttahöll.?
Ég hvet alla sem eru í kaup eða söluhugleiðingum að kíkja til okkar ef þá vantar leiðbeiningar eða ráðgjöf, ég get fullvissað menn um það að á fáar fasteignasölur á landinu hafa yfir eins mikilli þekkingu og reynslu að ráða eins og á fasteignasölu Vestmannaeyjar (við erum til húsa á 2. hæð í Glitni banka að Kirkjuvegi 23.)
Svör Guðjóns Hjörleifssonar http://www.heimaey.net/
Hversu mikið hefur fasteignamarkaðurinn stækkað í Eyjum síðustu 12.mánuði?
Ég er að byrja í þessu, en eftir að hafa fylgst með þeirri hreyfingu sem er á íbúðamarkaðnum þá er ég sannfærður um að hann hefur stækkað mikið. Eins og fram kemur í svari mínu hér að neðan, þá er eyjafólk sem er að eignast sína fyrstu íbúð 2ja til 3ja herbergja, í samkeppni við fólk ofan af fastalandinu, sem gerir tilboð í íbúðir eingöngu með því að skoða þær á netinu. Kannski minnkar þetta með hækkandi fasteignaverði hér í Eyjum. Ég tel að það sé jafnvel að koma grundvöllur fyrir byggingu á einu til tveimur nettum fjölbýlishúsum.
Gerið þið ráð fyrir áframhaldandi vexti eða samdrætti í fasteignasölu í eyjum á næstu mánuðum?
Það á eftir að verða meiri vöxtur á fasteignamarkaðnum. Samfélag okkar er sterkara en oft áður, meiri jákvæðni, miklar fjárfestingar í atvinnulífi, sterk staða bæjarsjóðs og svona mætti lengi telja. Jafnframt eru það fleiri sem búa á fastalandinu sem telja íbúð í Eyjum góðan fjárfestingakost, og eru að velja á milli að eiga íbúð hérna frekar en sumarbústað. Ég hef orðið mikið var við þetta t.d. hjá golfáhugamönnum sem vita það að golfvöllurinn í Eyjum er sá besti á landinu í dag. Allt sem að framan er talið mun hafa jákvæð áhrif á vöxt á fasteignamarkaðnum. Ég væri ekki að stofna fyrirtæki í Eyjum ef ég hefði ekki trú á þessari þróun.
Hvaða form húsnæðis eru hvað vinsælust hjá fasteignakaupendum?
Ég á erfitt með að svara þessu þegar ég er nýbúinn að opna, en eignir sem fara á sölu og þarf lítið sem ekkert að gera fyrir þær fara fljótt, sama hvort það eru blokkaríbúðir, par-rað- eða einbýlishús. Aftur á móti eru tækifæri fyrir laghenta að kaupa hús sem þarfnast viðhalds, endurbæta þau og selja aftur á markaði.
Hver er söluþóknun ykkar fyrir einkasölu með skatti og gjöldum?
Ég ákvað að auglýsa á baksíðu Vaktarinnar mína gjaldskrá. Hún þarf að vera sýnileg. Ég tók þá afstöðu þar sem fasteignamarkaðurinn hefur hækkað mikið að koma til móts við seljendur fasteigna og í stað þess að vera með prósentur þá valdi ég þá leið að vera með fasta lága söluþóknun, og hafði sett upp 6 verðflokka og auglýsti ég þá einnig í glugga á skrifstofu minni. Man ég ekki eftir að þetta hafi verið gert áður. Ég hef greinilega hrist upp í fasteignasölum hér í Eyjum, því önnur fasteignasalan hefur lækkað sig úr 1,7% í 1,2%. Ég hef því ákveðið að vera með 1,1% söluþóknun fyrir einkasölu fasteigna. Þetta er lægsta söluþóknun í Eyjum og ég er mjög sáttur að með stofnun Heimaeyjar ehf. skulu eyjamenn greiða töluvert lægri söluþóknun en þau gerðu áður, því það eru ekki líkur á því að þessi lækkun hefði annars komið.
Hefur verið jafnmikill vöxtur í sölu atvinnuhúsnæða í Eyjum og í almennum fasteignum?
Vöxturinn hefur verið meiri á almenna fasteignamarkaðnum. Það er líklegra að sumt af því atvinnuhúsnæði sem er til sölu í dag sé selt á undirverði.
Telurðu að verðgildi fasteigna muni hækka með bættum samgöngum til eyja?
Það eru allar forsendur fyrir því að með bættum samgöngum, þá styrkist allt hér í Eyjum. Sú styrking mun hafa jákvæð áhrif á allt hérna í Eyjum, og að sjálfsögðu mun fasteignaverð hækka hér, annað væri óeðlilegt.
www.eyjar.net þakkar Helga og Guðjóni fyrir að gefa sér tíma að svara spurningum okkar
- Ekki bárust svör við spurningunum frá Domus Fasteignasölu
Dægurmál | Miðvikudagur, 26. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25. september kl. 06.32 | mbl.is |
Eru eyjamenn sammála?
Vill heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga
Blaðið í dag
Ég held að til lengri tíma sé betra ef sveitafélögin taka að minnsta kosti við hluta af heilbrigðisþjónustunni og að það verði gert með sama hætti og gert var með grunnskólana. Að málaflokkurinn sé fluttur yfir og einhverjir tekjustofnar með," segir Hjalti Þór Vignisson, sveitarstjóri Hornafjarðar.
Ríkisendurskoðun skilaði í byrjun þessa mánaðar niðurstöðum stjórnsýsluúttektar sinnar á þjónustusamningi sem er í gildi milli sveitarfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins um heilsugæslu og öldrunarþjónustu. Þar kom fram að stofnunin teldi ekki endilega að samningurinn þjónaði fjárhagslegum hagsmunum ríkisins betur en ef það sæi sjálft um reksturinn. Veigamesta aðfinnsla Ríkisendurskoðanda sneri að gæðaeftirliti sem hann taldi ábótavant.
Hjalti segir þó ráðuneytið einnig bera ákveðnar skyldur í þeim efnum. Við erum til dæmis með annan samning við félagsmálaráðuneytið um málefni fatlaðra þar sem þeir leggja fram ákveðið gæðamódel sem við eigum að vinna eftir. Það væri mjög eðlilegt ef heilbrigðisráðuneytið gerði slíkt hið sama til að mæla gæði þjónustunnar alls staðar með sambærilegum hætti. Með þessu er ég ekki að bera blak af okkur fyrir að hafa ekki sett okkur gæða og þjónustumarkmið. En ríkisendurskoðandi segir beinlínis að ráðuneytið hafi ekkert skipt sér að þessu."
Nánar í Blaðinu í dag
Tjáðu þig um málið á www.eyjar.net/spjall
Dægurmál | Miðvikudagur, 26. september 2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)