Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Ómar Garðason spyr hvers við eigum að gjalda?

99a97230a58272565396c5177383bcb0_Arni-Matt

26. september kl. 18.59

Ómar Garðarsson skrifar:

Hvers eigum við að gjalda?

-Fagnar ályktun aðalfundar Útvegsbændafélags Vestmannaeyja.

 
Árni Mathiesen, fjármálaráðherra fundaði með útvegsbændum á þriðjudaginn þar sem hann skýrði málin. Hafdís Snorradóttir og Böðvar Jónsson með Árna.

„En einn skuggi hvílir yfir þessu öllu saman, það er aðför stjórnvalda að Vestmannaeyjum. Fréttir hafa bent á í mörg ár hvernig atvinna og tekjur hafa verið færðar héðan með handafli  í formi aflaheimilda sem hafa verið færðar öðrum án endur­gjalds,“ segir Ómar Garðarsson ritstjóri m.a. í grein sem hann kallar Vestmannaeyjar tækifærana. Er hann bjartsýnn á framtíðina en er ósáttur við handaflsaðgerðir í fiskveiðistjórnun.

Stundum hafa þessi skrif Frétta verið eins og rödd hróp­andans í eyðimörkinni, það var eins og öllum hafi staðið á sama, ekki síst stjórnmálamönnum, þegar lífsbjörgin var rifin af okkur.
  Það var því ákveðinn léttir, ­reyndar tregablandinn, þegar aðalfundur Útvegsbændafélags Vestmannaeyja sendi frá sér álykt­un þar sem bent var á að mótvægisaðgerðir ríkis­stjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorski eru aðeins dropi í hafið þegar horft er til fórna samfélagsins í Eyjum á undanförnum árum.


  Þar segir að á undanförnum sex árum hafi samfélagið í Eyjum fært fórnir upp á 3,1 milljarð króna í formi byggðakvóta, línuívilnunar og ýmissa bóta, m.a. vegna brests í rækju og skelveiðum, útflutnings­álags (sem reyndar hefur verið fellt niður) og þróunarsjóðs­gjalds sem síðar varð að veiði­gjaldi.

 Nánar í Fréttum í grein sem Ómar kallar, Vestmannaeyjar tækifæranna.


Ingibjörg Arnardóttir í opnuviðtali Frétta

adae17c804235668c123f284815f9dcf_Ingibjorg-Arnarsdottir

26. september kl. 18.35

Ingibjörg Arnarsdóttir í opnuviðtali í Fréttum

Mikilvægt fyrir fólk að sjá að konur spila líka í efstu deild

 

 
Ingibjörg og fjölskylda.

Fyrr á þessu ári tók Frjáls verslun saman lista yfir hundrað áhrifamestu konur í íslensku viðskiptalífi. Ingibjörg Arnarsdóttir er ein þessara kvenna en hún starfaði í sex ár sem framkvæmdastjóri hjá Karli K. Karlssyni sem er ein stærsta heildverslun landsins.

 

Hún söðlaði um í sumar og starfar nú sem lánastjóri í höfuðstöðvum Glitnis. Ingibjörg er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, dóttir hjónanna Arnars Sighvatssonar frá Ási og Soffíu Björnsdóttur frá Bólstaðarhlíð. Hún er gift Ólafi Þór Gylfasyni og þau eiga tvö börn. 


Andrúmsloft uppbyggingar
Ingibjörg er fædd  1971 og var því aðeins um tveggja ára aldurinn þegar eldgos braust út á Heimaey. Það hlýtur því að hafa verið nokkuð sérstætt að alast upp í Eyjum á umbrotatímum eftir eldgosið og því liggur beinast við að spyrja fyrst um æskuárin í Eyjum.
 „Það var alveg frábært að alast upp í Eyjum og forréttindi í sjálfu sér. Við krakkarnir vorum mjög frjáls, eyjan hafði svo margt upp á að bjóða og íþróttalíf var öflugt þegar ég var stelpa. Ég æfði sund og líka frjálsar um tíma. Það var mikið félagslíf í kringum sundið og ég  kynntist fullt af krökkum sem voru að æfa uppi á landi. Enn í dag er ég að rekast á þetta fólk á förnum vegi. 
  Eftir á að hyggja finnst mér að sundið hafi verið góður undirbúningur fyrir lífið því það krefst aga og reglusemi að stunda íþróttir.


  Ég held að andrúmsloft uppbyggingar sem ríkti eftir gos hafi líka haft mikil áhrif á mig. Samheldnin og vinnusemin í samfélaginu kenndi mér margt. Mér finnst líka forréttindi að hafa fengið að taka þátt í atvinnulífinu eins ung og þá tíðkaðist. Þó svo það hljómi nú til dags eins og hálfgerð barnaþrælkun að láta 13 ára krakka vinna í fiski þá er það einhver besti skóli sem ég hef gengið í."

 

Nánar í Fréttum.


Elliðaeyingar sjá um lundaballið í ár

b38378b9aa550eac4f4238a146fa0557_Ivar-Atla

26. september kl. 16.18

Elliðaeyingar sjá um lundaballið í ár:

Önnur lundaböll eins og upphitun fyrir ballið eina sanna

-segir Ívar Atlason sem lofar hóflegu gríni þannig að enginn þurfi að rjúka út

Önnur lundaböll eins og upphitun fyrir ballið eina sanna 

Nú nálgast Lundaballið sem er einn af stóru viðburðunum í Vestmanna­eyjum. Lundaballið verður í Höll­inni á laugardaginn þar sem verður mikið um dýrðir og stefnir í góða aðsókn. Nú er komið að Elliðaeyingum að standa fyrir Lundaballinu en sagan hefur sýnt að ekkert úteyjafélag stendur þeim á sporði þegar kemur að því að halda lundaball.

 

 

Fréttir tóku hús á Ívari Atlasyni, Elliðaeyingi, sem nú er að, nótt sem nýtan dag, við að undirbúa ballið sem á sér orðið áratuga hefð. „Já, við skiptumst á að halda lundaböllin en hvert félag leggur til ákveðið magn af lunda, fer það eftir stærð eyjanna og venjan er að félagið, sem haldur ballið, leggur ríflega í púkkið," sagði Ívar.


  Síðast héldu Elliðaeyingar ballið árið 2000 og Ívar segir að lundaböllin síðan hafi verið smá upphitun fyrir ballið í ár. „Lundaballið okkar er, eins og allir vita, stærsta og flottasta ballið enda Elliðaey   stærsta úteyjan. Aðrar eru bara smáeyjar og sker. Til að fólk átti sig á stærðinni þá eigum við Elliðaeyingar það sameiginlegt með San Francisco að þegar þú siglir þar inn er lítil eyja á hægri hönd. Hjá San Francisco er það Alcatras en á leiðinni út í Elliðaey er á hægri hönd er lítil eyja, Bjarnarey, sem sést ef skyggni er gott."


Á ferðalagi á undan dauðanum

30b3436cd4c2083f30d6f293898fe1b4_Enskur

26. september kl. 16.06

Frægð, frami, niðurlæging og upprisa í Kristi

Á ferðalagi undan dauðanum

Athyglisvert viðtal við Clifford Edwards, 62 ára gamlan Bret

 
Clifford framan við farkostinn.

Margir hafa eflaust tekið eftir blárri tveggja hæða rútu sem lagt hefur verið hér og þar um bæinn síðustu daga. Hún er skreytt kristilegum skilaboðum þar sem -Jesús elskar þig, er einna mest áberandi. Bílstjórinn og eigandi rútunnar er Clifford Edwards, 62 ára gamall Breti sem átt hefur erfitt en jafnframt atburðaríkt lífshlaup.            

 

 Hann hefur upplifað allt frá því að lifa í ríkidæmi sem frægur söngvari og lifa á götunni til 20 ára. Nú dvelst hann í þeim farakosti sem býðst þá stundina og lætur Jesús leiða sig áfram á ferð sinni.

Ætlaði sér ekki að drekka

 „Ég ætlaði mér aldrei að smakka vín," sagið Clifford en faðir hans var mikill drykkjumaður og gerði heimilislífið nánast óbærilegt fyrir fjölskylduna. Þegar faðirinn kom heim af barnum um helgar fór fjölskyldan í langan göngutúr og kom ekki aftur fyrr en hann var farinn í rúmið til að sofa úr sér. Skólagangan var Clifford erfið því heimilisástandið hafði áhrif á frammistöðu hans og hann var því alltaf lægstur í bekknum. Kennararnir tóku hann oft fyrir eða börðu hann með kennaraprikum fyrir að standa sig illa.

  „Ég var lagður í einelti af samnemendum og kennurum," segir Clifford sem var gefinn einstök söngrödd sem seinna gerði hann frægan og í skólanum var hann oft látinn syngja. Það olli öfund hjá samnemendum og var honum því mikið strítt. Yngri árin voru því enginn dans á rósum en hann hafði gaman af að syngja og byrjaði að syngja með kirkjukórnum um sjö ára aldur. Nítjá ára hóf hann að syngja á börum og skemmtunum og brátt bókaði hann sig á stærri stöðum og sá frægðina í hyllingum. Þá var það eitt kvöldið eftir sérstaka framkomu sem honum var boðið að skála í kampavíni sem hann þáði. Eftir það lá leiðin niður á við því honum líkaði það frelsi sem fylgdi áfenginu. Hann eignaðist mikið af peningum og vini sem alltaf voru til í að skemmta sér með honum en þegar hann datt af sviðinu sökum ölvunar var ferli hans skyndilega lokið. Peningarnir hurfu smám saman og vinirnir í kjölfarið svo leið hans lá í strætið með flöskuna sér við hlið.

  „Ég var í strætinu, bjó í pappakössum rétt við Thamesánna. Fjölskylda mín reyndi að taka mig inná heimilið en ég var ekki húsum hæfur. Ég kunni ekki einu sinni að nota hníf og gaffal svo þau gáfust upp á mér og ég fór aftur í strætið," segir Clifford. Hann svaf á bekkjum undir berum himni, drakk og betlaði. „Ég ætlaði að byrja uppá nýtt en það var enginn tilbúinn til að gefa mér tækifæri," segir Clifford. Hann hafði misst alla von og fannst hann vera einskis virði.

 Hann gerði margar tilraunir til að hætta að drekka og með hjálp afeitrunar á vegum Hjálpræðishersins tókst honum það í fjögur ár. Á þeim tíma, árið 1980, kynntist hann konu sem hann trúlofaðist og var mjög hamingjusamur. Það var ekki fyrr en hann fór í heimsókn til heimabæjar síns að fagna brúðkaupinu með ættingjum sínum og brúðhjónunum var gefin kampavínsflaska að gjöf að hann smakkaði vín aftur. Það var sama sagan, hann hafði enga stjórn á drykkjunni og var áður en hann vissi af orðinn dauðadrukkinn og búinn að missa tökin.

 

            Hann var úrskurðaður dauðvona

  „Árið 1996 fékk ég þann úrskurð að vera með óbætanlegar heilaskemmdir og lifrarskemmd. Ég átti sex mánuði ólifaða, ég átti enga von," segir Clifford. Hann hafði verið slappur og fór á endanum til læknis sem færði honum þessar fréttir. Það var ekki fyrr en þá að hann leitaði til guðs og bað hann um hjálp. Hann svaf eins og engill þessa nótt og daginn eftir þegar hann vaknaði fannst honum eitthvað hafa breyst. Hann var ennþá dauðvona en það truflaði hann ekki. Hann fór og fann sér landakort, opnaði það af handahófi og það var eins og einhver rödd innra með honum segði sér:

 

„Farðu og syngdu á götum úti og segðu öllum sem tala við þig að ég elski þá og þrái að kynnast þeim betur."

Hann fór af stað með eitt pund í vasanum sem er jafngildi 120 íslenskum krónum og Biblíuna. Honum var sagt að hann ætti tvær vikur eftir ólifaðar þegar hann hélt af stað í þriggja vikna ferðalag, það var árið 1996. Fyrst ferðaðist hann með lest en svo voru honum gefnir faraskjótar, bíldruslur, litlir sendiferðabílar og loks rútur. Árið 2001 greindist hann með krabbamein og það þurfti að skera í burtu stóran hluta af hálsinum á honum og svolítið af öxlinni. Honum voru enn á ný gefnar örfáar vikur en tíminn leið og dauðinn lét ekki sjá sig. Hann lét ekki deigan síga þrátt fyrir þennan dóm og hélt áfram að ferðast og syngja guðsorð fyrir alla sem heyra vilja.

Hann ferðaðist um  Bretlandseyjar endilangar, um Færeyjar, til Íslands og alla leið út að Síberíu. Í dag er hann að koma í annað skiptið til Íslands og jafnframt annað skiptið til Vestmannaeyja. „Mér finnst frábært að koma til Vestmannaeyja, mér finnst eins og fólkið hér sé eins og fólk var fyrir fimmtíu árum. Ég held að allir sem búa á eyjunni hafi keyrt framhjá rútunni minni og í gær komu strákar að tala við mig og fengu að fara í bíltúr með mér. Hér er náttúran fögur en hún á ekkert í hve yndislegt fólkið er," segir Clifford.

 

Ekki á vegum kristni félags

„Það eru svo margir sem halda að ég sé fulltrúi einhvers safnaðar. Ég er ekki á vegum neins og ég er hvorki Lútherstrúar né kaþólskur eða nokkuð annað. Ég hef samt sem áður ekkert á móti söfnuðum en ég er bara óháður. Ég trúi á Jesús og Guð og ég er hér bara til að segja að hann elskar ykkur. Ég vil gefa fólki góðar minningar sem það síðan tengir við Jesús og ég hef ofsalega gaman af börnum. Ég leyfi þeim oft að kíkja uppúr topplúgunni á rútunni og það finnst þeim ógleymanleg upplifun," segir Clifford.

Ævi hans hefur verið erfið en honum líður vel í dag. Hann á góða vini sem hlaupa ekki frá honum þegar peninga skortir og honum finnst tilveran brosa við sér. Hann vonar að fleiri Vestmannaeyingar heimsæki sig í rútuna áður en hann fer héðan því hann hefur gaman af gestum og er til í að spjalla við hvern sem er um hvað sem er. Hann segist oft hafa hjálpað fólki með að hlusta á slæma hluti sem það hefur borið í farteskinu og gefið þeim frelsi. Hann segist aldrei leggja þessa hluti á minnið því það er ekki hans að dæma, hans er bara að hlusta og reyna að hjálpa. Þó áfangastaðurinn sé ekki alltaf ákveðinn, né dvalartíminn er hann mjög ánægður með sitt hlutverk. Hann lýsir því svo: „Lífsverk mitt er einmanalegt en ég er aldrei einn."


Vinnslustöðinn vil ábyrgar fiskveiðar

792d67e0894d54aefb2625a446cbec8f_vsv

26. september kl. 15.31 | eyjar.net |

Vinnslustöðin hefur gerst aðili að yfirlýsingu um ábyrgar fiskveiðar

Gefin hefur verið út yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar á Íslandi. Að yfirlýsingunni standa aðilar í íslenskum sjávarútvegi; Sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnunin, Fiskistofa og Fiskifélag Íslands.

Yfirlýsingin er liður í því að koma á framfæri upplýsingum um hvernig staðið er að fiskveiðum á Íslandi. Kröfur markaða um upplýsingar og staðfestingu á því að fiskur sé veiddur með ábyrgum hætti hafa aukist talsvert á undanförnum árum og er yfirlýsingin liður í að bregðast við því. Í yfirlýsingunni er farið yfir meginþætti íslensks fiskveiðistjórnunarkerfis og hvernig íslensk fiskveiðistjórnun stuðlar að ábyrgum veiðum og sjálfbærri nýtingu fiskistofna.


Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun

858d9090dd0724e583f76f664a172df2_IMG_6073

| 26. september kl. 11.45 | eyjar.net |

Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun

11,4 milljónir kr til Vestmannaeyja

Á spjallborði www.eyjar.net hafa komið upp nokkrar áhugaverðar hugmyndir í nýsköpun tengdum Vestmannaeyjum. Eitt er að fá góða hugmynd og annað er að hrinda henni í framkvæmd og finna fjármagn til þess að koma hlutunum af stað.

www.eyjar.net sendu nokkrar spurningar á Hrafn Sævaldsson ráðgjafa hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og spurðum Hrafn út í Vaxtarsamning Suðurlands og Vestmannaeyja.

Svör Hrafns birtast hér fyrir neðan:

Hvert er markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja?
-Markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja (VSSV) eru eftirfarandi:
- Að efla Suðurland sem eftirsóttan valkost til búsetu.
- Að auka samkeppnishæfni svæðisins og efla hagvöxt.
- Að þróa og styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu.
- Að fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vörum og þjónustu.
- Að nýta möguleika sem skapast með aðild að alþjóðlegum verkefnum.
- Að laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu.

Eru mörg verkefni sem hafa fengið styrk og eru staðsett í Vestmannaeyjum?
- Á þessu fyrsta starfsári samningsins hefur verið úthlutað 38,7 mkr. fyrir árið 2007 og 4,0 mkr. fyrir árið 2008. Samtals 42,7 mkr. 16 Verkefni hafa verið styrkt, 4 verkefnum hefur verið hafnað og fjöldi verkefna er í vinnslu á öllu Suðurlandi.
- Samtals hafa verið samþykkt framlög til 5 verkefna að upphæð 11,4 mkr til Vestmannaeyja á árinu 2007. Fjöldi verkefna er í umsóknarferli eða er á teikniborðinu.  Þau verkefni sem fengið hafa stuðning frá samningnum eru:

    1.Uppbygging söguseturs um Tyrkjaránið 1627, Tyrkjaránssetur. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa.  VSSV styrkir verkefnið um  750.000. kr..
    2. Efling Rannsókna- og háskólastarfs í Eyjum. Verkefnið er flokkað innan Mennta- og rannsóknaklasa.  VSSV styrkir verkefnið um 3,0 mkr.
    3. Verðmætaaukning sjávarfangs, humarklær, vöruþróun
Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV styrkir verkefnið um 3,75 mkr.
    4. Köfunarskóli í Vestmannaeyjum. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa.  VSSV styrkir verkefnið um  2,5 mkr.
    5. Aukin arðsemi humarveiða: Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV samþykkti stuðning við verkefnið á 1. ári, samtals 1,4 mkr, auk þess sem ráðið lýsti yfir áhuga á frekari stuðningi við verkefnið í framhaldinu á verkefninu.

Hvernig er umsóknarferlinu háttað?
-Atvinnuþróunarfélag Suðurlands er framkvæmdaraðili samningsins og hefur félagið skrifstofu í Hvíta húsinu svokallaða að Strandvegi 50 í Vestmannaeyjum. Ef fólk telur sig hafa eitthvað áhugavert verkefni fram að færa, mælum við með því að það kynni sér starfsemi klasa og vaxtarsamninga á heimasíðu Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja, www.vssv.is., mjög góðar upplýsingar er þar að finna um allt sem við kemur samningnum og framkvæmd hans.  Þar er að finna m.a. fundargerðir framkvæmdaráðs, en ráðið tekur afstöðu til innsendra umsókna. Til að átta sig betur á umsóknarferlinu, er ágætt að lesa umsagnir um fyrri umsóknir.  Að sjálfsögðu getur fólk alltaf haft samband og komið við á skrifstofu félagsins, hvort heldur í Vestmannaeyjum eða á Selfossi.  Starfsmenn félagsins veita áhugasömum aðilum handleiðslu í gegnum ferlið, fólki að kostnaðarlausu. 

Á www.eyjar.net/spjall eru nokkrar áhugaverðar atvinnuhugmyndir, telurðu að það sé möguleiki fyrir þær að sækja um styrk?
- Við hvetjum þá aðila sem telja sig hafa eitthvað fram að færa að koma sér í samband við okkur.  Oft á tíðum er um góðar hugmyndir að ræða, en missa flugið þegar það á að koma hugmyndunum í framkvæmd.  Því hefur handleiðsla okkar í upphafi og í framhaldinu  verið mörgum mikilvæg aðstoð.  Hugtakið "miði er möguleiki" á vel við í umræðunni um þessi mál, ef fólk hefur verið með einhverja hugmynd í maganum í langan tíma hvetjum við það til að gera eitthvað í málinu, fyrsti staðurinn til að ræða málin getur verið hjá  okkur.

Hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda
- Skilyrði fyrir fjárstuðningi VSSV er að viðkomandi verkefni tengist uppbyggingu klasa, svo sem stuðningi við stofnun tengslanets, fræðslu og þjálfun, rannsókna- og greiningarvinnu, ráðgjöf eða sameiginleg þróunar- og samstarfsverkefni sem metin eru í hverju tilfelli. Ekki er heimilt að veita styrki til fjárfestinga í fyrirtækjum eða reksturs fyrirtækja eða opinberra stofnana, auk þess sem stofnkostnaður er ekki styrkhæfur.

Hversu oft er styrkjum útdeilt á ári og hversu mikið
-Tekið er á móti umsóknum til VSSV allt árið.  Framkvæmdaráð samningsins tekur síðan afstöðu til umsóknanna.  Ráðið fundar 10 - 12 sinnum á ári og oftar ef þurfa þykir, allt eftir fjölda umsókna sem liggja fyrir.
- Atvinnuþróunarfélag Suðurlands veitir síðan smástyrki, einskonar hvatningastyrki, einu sinni til tvisvar á ári. Undanfarin ár hefur verið úthlutað einu sinni á ári að vori til.  Í ár verður hins vegar úthlutað styrkjum tvisvar sinnu, fyrra skiptið var s.l. vor og síðan er umsóknarfrestur að renna út n.k. föstudag, 28. september vegna  hauststyrkja félagsins.  Úthlutað verður 5 milljónum til áhugaverðra verkefna að þessu sinni. Styrkirnir hafa verið á bilinu 100 - 350 þúsund króna.  Umsóknirnar eru metnar út frá ýmsum fyrirframskilgreindum þáttum.  Styrkirnir hafa verið auglýstir vandlega í fjölmiðlum á Suðurlandi í mánuð, en frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins www.sudur.is Heildarstyrksupphæð  sem Atvinnuþróunarfélagið mun veita á þessu ári verður því um 10 mkr. 

Hjálpið þið fólki við að útfæra atvinnuhugmyndir
- Já, eins og bent hefur verið á hér að ofan veitum við áhugasömum aðilum endurgjaldslausa aðstoð við framgang hugmynda sinna.  Við bendum á heimasíðu Atvinnuþróunarfélag Suðurlands www.sudur.is og heimasíða VSSV www.vssv.is . 

www.eyjar.net þakkar Hrafni kærlega fyrir svörin og hvetur eyjamenn með hugmyndir að hafa samband við Hrafn og starfsfólk Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.


Verkefni Eyjalöggurnar....

8256d6a60da182afb266754123e4b040_IMG_6591

| 26. september kl. 11.30 | eyjar.net |

Helstu verkefni lögreglu frá 17. til 24. september 2007.

Fjögur tilvik vegna brota á umferðarlögum

Lögreglan hafði í nógu að snúast í sl. viku og þá sérstaklega um helgina enda stóð þá yfir rannsókn á kæru vegna meintrar nauðgunar.  Þegar hefur verið gerð grein fyrir því máli í fjölmiðlum.

Ein eignaspjöll voru tilkynnt lögreglu í vikunni en um var að ræða skemmdir á niðurfallsröri frá þakrennu við Brekastíg 1. Leikur grunur á að þarna hafi verið börn að leik.

Lögreglu var tilkynnt um að handtösku hafi verið stolið úr kvennaklefa Íþróttamiðstöðvarinnar um kvöldmatarleitið þann 18. sept. sl.  Um er að ræða tösku úr svörtu gerfileðri, skreytta með stjörnum, krossum og tíglum.  Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hvar töskuna er að finna eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Fjögur tilvik vegna brota á umferðarlögum kom til kasta lögreglu í sl. viku. Í tveimur tilvikum var um að ræða árekstur þar sem sá er tjóninu olli fór í burtu án þess að tilkynna um óhappið. Í fyrra tilvikinu var að ráð óhapp þann 18. sept. sl. á milli kl. 13:00 og 16:00 á bifreiðastæði við Framhaldsskólann.  Seinna tilvikið var tilkynnt þann 21. sept. sl. en óljóst er hvar eða hvenær það átti sér stað.  

Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur en hann mældist á 85 km/klst. á Dalavegi en þar er hámarkshraði 60 km/klst.  Þá var einn ökumaður kærður fyrir að tala í farsíma í akstri án þess að nota handfrjálsan búnað.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu í vikunni en um var að ræða fjögurra bifreiða árekstur á Strembugötu þann 18. september sl.  Þarna hafi bifreið verið ekið norður Strembugötu með þeim afleiðingum að hún lenti á bifreið sem var kyrrstæð við Höllina þannig að hún kastaðist fram og á aðra bifreið sem var kyrrstæð þar fyrir framan.  Þriðja bifreiðin lenti síðan á fjórðu bifreiðinni, sem einnig var kyrrstæð. Ekki urðu alvarleg slys á fólki en nokkðu tjón varð á bifreiðunum.


Fyrsta skóflustunga að nýju knattspyrnuhúsi tekin á föstudag

c43c2141d0a599f20f665452eda558df_fjolnotahus

25. september kl. 17.48

 

Fyrsta skóflustunga að nýju knattspyrnuhúsi tekin á föstudag

Þorkell Sigurjónsson tekur fyrstu skóflustunguna ásamt 20 krökkum

 
Svona gæti fyrirhugað knattspyrnuhús litið út

Það verður sannkallaður hátíðisdagur hjá ÍBV-íþróttafélagi á föstudaginn en hápunkturinn er sjálfsagt fyrsta skóflustungan að nýju knattspyrnuhúsi en Þorkell Sigurjónsson, stuðningsmaður ÍBV númer eitt og mikill áhugamaður um húsið mun taka fyrstu skóflustunguna ásamt tuttugu iðkendum félagsins.  Þá lokahóf yngri flokka fara fram fyrr um daginn, karlalið ÍBV í knattspyrnu leikur síðasta leik sinn og síðast en ekki síst verður lokahóf eldri flokka í Höllinni um kvöldið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem ÍBV birtir á heimasíðu sinni en fréttatilkynninguna má lesa hér að neðan:

N.k. föstudagur verður stór dagur í sögu ÍBV Íþróttafélags. Í fyrsta lagi verður lokahóf yngri flokka félagsins í knattspyrnu í sal 2 í Íþróttamiðstöðinni, hófið hefst kl.15.00. Strax að loknu hófinu kl. 16.30, mun verða tekin fyrsta skóflustunga að nýju knattspyrnuhúsi, sem rísa mun vestan við Týsheimili.
   Þorkell Sigurjónsson mikill áhugamaður um byggingu hússins mun taka fyrstu skóflustunguna ásamt tíu stelpum og tíu strákum úr yngstu flokkum félagsins. Strax að lokinni þessari athöfn hefst leikur ÍBV og Fjölnis í 1.deildinni. Leikur, sem getur skorið úr um úrvalsdeildarsæti að ári.
   Um kvöldið kl. 20.30, verða síðan sumarlok knattspyrnumanna í Höllinni. Þar munu fara fram viðurkenningar fyrir sumarið og slegið á létta strengi.  Íþróttaáhugafólk er hvatt eindregið til að fjölmenna og samfagna stórum áföngum í íþróttasögu Vestmannaeyja.


Elli Eyjabæjó er farinn að þjálfa ÍBV

e794f3b41f0c1878cdd5c7e2d160aa02_ellidiphotoshop

25. september kl. 18.15 | ibv.is |

Bæjarstjórinn farinn að þjálfa hjá ÍBV

Bæjarstjórinn okkar, hann Elliði Vignisson verður aðstoðarmaður Unnar Sigmarsdóttur þjálfara 6.fl. drengja í vetur. Hann var hér áður fyrr öflugur handknattleiksmaður, þó ekki næði hann jafn langt í íþróttinni og yngri bróðirinn Svavar, sem enn er í fullu fjöri.

Elliði á auðvitað rétt á nokkrum launum fyrir starf sitt, eins og aðrir. Hann vill hins vegar láta þá upphæð renna til íþróttakrakka í yngstu flokkum, sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með, að komast í keppnisferðir með félögum sínum. Frábært framtak hjá Elliða, og til fyrirmyndar í íþróttastarfi.


Gróska í fasteignaviðskiptum í Vestmannaeyjum

9f4a72ad2eaafa6f145b035103e08ba5_FASTEIGN+

25. september kl. 09.38 | eyjar.net |

Gróska í fasteignaviðskiptum í Vestmannaeyjum

Þrír fasteignasalar í eyjum

Eyjamenn hafa líklega slegið Íslandsmet í fjölda fasteignasala á hvern íbúa, en í eyjum eru nú starfandi þrír fasteignasalar og eftir því að dæma er mikil gróska í fasteignaviðskiptum í eyjum. Fasteignaverð hefur hækkað að undanförnu í framhaldi af aukinni eftirspurn eftir fasteignum í eyjum.

www.eyjar.net sendi spurningar á alla fasteignasala í Vestmannaeyjum og birtum við svör þeirra hér að neðan:

Svör Helga Bragasonar http://www.eign.net/

Hversu mikið hefur fasteignamarkaðurinn stækkað í eyjum síðustu 12.mánuði
Árið 2003 seldust 66 eignir í Eyjum, 54 árið 2004, 113 árið 2005, 109 árið 2006 og 115 hafa selst það sem af er þessu ári.

Gerið þið ráð fyrir áframhaldandi vexti eða samdrætti í fasteignasölu í eyjum á næstu mán.?
Ég held að markaðurinn sé kominn í ákveðið jafnvægi í bili og verðleiðrétting hafi átt sér stað og við verðum að selja þetta í kringum 10 eignir á mánuði að meðaltali næstu misseri.  Þrátt fyrir að verðleiðrétting hafi átt sér stað þá er meðalverð fasteigna í Eyjum ennþá undir 100.000 kr. Per fermeter en meðalverð sérbýlis í Rvk. árið 2007 er c.a. 235.000, á Akureyri c.a. 165.000 og í Árborg c.a. 160.000

Hvaða form húsnæðis eru hvað vinsælust hjá fasteignakaupendum?
Það hefur verið mikil aukning á sölu eigna í fjölbýli sem eru einkum þá vestur í bæ og eignir í fjölbýlishúsunum nær bænum eru einnig vinsælar og seljast yfirleitt um leið og þær koma í sölu td. seldust 61 íbúð í fjölbýli árið 2006.  Góð einbýli og raðhús eru einnig vinsæl og hafa selst fljótt.  Svo er mikill áhugi á eignum í Baldurshagahúsinu og þegar búið að selja nokkrar.

Hver er söluþóknun ykkar fyrir einkasölu með skatti og gjöldum?
Samkvæmt nýrri verðskrá þá eru sölulaun í einkasölu 1,2% og gerist ekki lægra í Vestmannaeyjum við þetta bætist virðisaukaskattur.  Fyrir þetta færðu aðgang að þjónustu tveggja lögmanna og tveggja löggiltra Fasteignasala sem hafa langmesta reynslu af öllum þeim fasteignasölum sem starfa í Vestmannaeyjum í dag.  Fasteignasala er ekki eins og bílasala og krefst fagmennsku.  Fasteignasalar á Fasteignasölu Vestmannaeyja hafa selt lang flestar eignir af þeim sem eru starfandi í Eyjum í dag.  Þú færð því mestu þekkinguna, reynsluna og gæðin fyrir ódýrast verð, allt fyrir viðskiptavini okkar.

Hefur verið jafnmikill vöxtur í sölu atvinnuhúsnæða í eyjum og í almennum fasteignum?
Það hefur verið aðeins aukning í sölu atvinnuhúsnæðis en ekki eins mikil og í sölu íbúðarhúsnæðis.

Telurðu að verðgildi fasteigna muni hækka með bættum samgöngum til eyja?
Já alveg örugglega, með bættum samgöngum opnast svo margir möguleikar m.a. hvað varðar atvinnu og almennt frelsi fólks.  Eins og segir í lið 2 hér að framan er meðalverð sérbýlis í Eyjum næstum því helmingi minna en í Árborg!! hvort finnst þér skemmtilegri eða fallegri staður Vestmannaeyjar eða Árborg ég tala nú ekki um eftir nýtt útivistarsvæði og íþróttahöll.?

Ég hvet alla sem eru í kaup eða söluhugleiðingum að kíkja til okkar ef þá vantar leiðbeiningar eða ráðgjöf, ég get fullvissað menn um það að á fáar fasteignasölur á landinu hafa yfir eins mikilli þekkingu og reynslu að ráða eins og á fasteignasölu Vestmannaeyjar (við erum til húsa á 2. hæð í Glitni banka að Kirkjuvegi 23.)

Svör Guðjóns Hjörleifssonar http://www.heimaey.net/

Hversu mikið hefur fasteignamarkaðurinn stækkað í Eyjum síðustu 12.mánuði?
Ég er að byrja í þessu, en eftir að hafa fylgst með þeirri hreyfingu sem er á íbúðamarkaðnum þá er ég sannfærður um að hann hefur stækkað mikið.  Eins og fram kemur í svari mínu hér að neðan, þá er eyjafólk sem er að eignast sína fyrstu íbúð 2ja til 3ja herbergja, í samkeppni við fólk ofan af fastalandinu, sem gerir tilboð í íbúðir eingöngu með því að skoða þær á netinu. Kannski minnkar þetta með hækkandi fasteignaverði hér í Eyjum. Ég tel að það  sé jafnvel að koma grundvöllur fyrir byggingu á einu til tveimur nettum fjölbýlishúsum.

Gerið þið ráð fyrir áframhaldandi vexti eða samdrætti í fasteignasölu í eyjum á næstu mánuðum?
Það á eftir að verða meiri vöxtur á fasteignamarkaðnum. Samfélag okkar er sterkara en oft áður, meiri jákvæðni, miklar fjárfestingar í atvinnulífi, sterk staða bæjarsjóðs og svona mætti lengi telja.  Jafnframt eru það fleiri sem búa á fastalandinu sem telja íbúð í Eyjum góðan fjárfestingakost, og eru að velja á milli að eiga íbúð hérna frekar en sumarbústað.  Ég hef orðið mikið var við þetta t.d. hjá golfáhugamönnum sem vita það að golfvöllurinn í Eyjum er sá besti á landinu í dag. Allt sem að framan er talið mun hafa jákvæð áhrif á vöxt á fasteignamarkaðnum. Ég væri ekki að stofna fyrirtæki í Eyjum ef ég hefði ekki trú á þessari þróun.

Hvaða form húsnæðis eru hvað vinsælust hjá fasteignakaupendum? 
Ég á erfitt með að svara þessu þegar ég er nýbúinn að opna, en eignir sem fara á sölu og þarf lítið sem ekkert að gera fyrir þær fara fljótt, sama hvort það eru blokkaríbúðir, par-rað- eða einbýlishús.  Aftur á móti eru tækifæri  fyrir laghenta að kaupa hús sem þarfnast viðhalds, endurbæta þau og selja aftur á markaði.

Hver er söluþóknun ykkar fyrir einkasölu með skatti og gjöldum?
Ég ákvað að auglýsa á baksíðu Vaktarinnar mína gjaldskrá.  Hún þarf að vera sýnileg.  Ég tók þá afstöðu þar sem fasteignamarkaðurinn hefur hækkað mikið að koma til móts við seljendur fasteigna og í stað þess að vera með prósentur þá valdi ég þá leið að vera með fasta lága söluþóknun, og hafði sett upp 6 verðflokka og auglýsti ég þá einnig í glugga á skrifstofu minni. Man ég ekki eftir að þetta hafi verið gert áður.  Ég hef greinilega hrist upp í fasteignasölum hér í Eyjum, því önnur fasteignasalan hefur lækkað sig úr 1,7% í 1,2%.  Ég hef því ákveðið að vera með 1,1% söluþóknun fyrir einkasölu fasteigna.  Þetta er lægsta söluþóknun í Eyjum og ég er mjög sáttur að með stofnun Heimaeyjar ehf. skulu eyjamenn greiða töluvert lægri söluþóknun en þau gerðu áður, því það eru ekki líkur á því að þessi lækkun hefði annars komið.

Hefur verið jafnmikill vöxtur í sölu atvinnuhúsnæða í Eyjum og í almennum fasteignum?
Vöxturinn hefur verið meiri á almenna fasteignamarkaðnum. Það er líklegra að sumt af því atvinnuhúsnæði sem er til sölu í dag sé selt á undirverði.
 
Telurðu að verðgildi fasteigna muni hækka með bættum samgöngum til eyja?
Það eru allar forsendur fyrir því að með bættum samgöngum, þá styrkist allt hér í Eyjum.  Sú styrking mun hafa jákvæð áhrif á allt hérna í  Eyjum, og að sjálfsögðu mun fasteignaverð hækka hér, annað væri óeðlilegt.

www.eyjar.net þakkar Helga og Guðjóni fyrir að gefa sér tíma að svara spurningum okkar
- Ekki bárust svör við spurningunum frá Domus Fasteignasölu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband