| 28. september kl. 11.30 | eyjar.net |
Hjartað slær við höfnina
Vestmannaeyingar fagna afmæli Bæjarbryggjunnar: 100.ára í haust
Fréttablaðið í dag
Um þessar mundir halda Vestmannaeyingar upp á hundrað ára afmæli Bæjarbryggjunnar sem var tekin í notkun árið 1907. Frá náttúrunnar hendi hefur þó verið höfn í Eyjum frá landnámstíma.
Eins og frægt er orðið var fyrsta kirkjan á Íslandi reist við höfnina í Vestmannaeyjum þegar kristnitakan átti sér stað árið 1000. Svo liðu aldirnar og árin og alltaf var útgerð frá Eyjum, enda er þar ein af elstu verstöðvum Norður-Atlantshafs," segir Arnar Sigurmundsson, formaður framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja.
Fyrsta bryggjan var svo reist þegar vélbátar hófu að koma til landsins og til að sinna þeim betur réðist þetta litla sveitarfélag í að byggja hana. Fljótlega fékk hún nafnið Bæjarbryggjan og í ár minnumst við Vestmannaeyingar þessara tímamóta," segir Arnar.
Nokkrum árum síðar, eða árið 1911, var bryggjan stækkuð og endanlega mynd fékk hún árið 1925. Nú er hins vegar verið að vinna í að endurgera þessa aldargömlu bryggju og er stefnt að því að hún fái eins upprunalegt útlit og kostur er enda höfðar slíkt bæði til heima- og ferðamanna.
Höfnin í Vestmannaeyjum hefur alltaf verið talin mjög góð og eftir gosið varð hún enn betri því við það þrengdist innsiglingin. Við höfum um tvo kílómetra af bryggjuplássi en það er svo mikil vegalengd að allir eyjarskeggjar gætu raðað sér upp á bryggjunni og myndað óslitna röð á bryggjukantinum," segir Arnar svolítið stoltur og bætir því við að íbúar eyjarinnar séu rúmlega fjögur þúsund í dag.
Skipum hefur fækkað með árunum, en á móti hafa þau stækkað svo við höfum virkilega þörf fyrir allt þetta pláss og jafnframt góða þjónustu við skipin. Bæði skemmtiferða og farskip. Menningartengd ferðaþjónusta er líka stöðugt að sækja í sig veðrið og í okkar tilfelli er þetta einstakt því það er svo margt við menninguna í Eyjum sem tengist höfninni. Stafkirkjan er til dæmis hérna við höfnina og húsið Landlyst, sem er fyrsta fæðingarstofnunin sem reist var á landinu og svo er náttúrlega umhverfið við höfnina, sem er stórskorið og einstaklega fallegt,"
segir Arnar og tekur um leið fram að daglega sé mikið líf við þessa höfn.
Herjólfur siglir til og frá landi tvisvar sinnum á dag og þá eru ónefnd fiski-, flutninga- og skemmtiferðaskipin. Því er um að gera að búa svo um að hér séu allar aðstæður til fyrirmyndar svo að hafnarlífið haldi áfram að blómstra eins og það hefur gert undanfarnar aldir," segir Vestmannaeyingurinn Arnar Sigurmundsson
Flokkur: Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.