Eyjar í tímaamótum

39ee143addcfd7b98360ec58ddf40ef5_forsida_oskar

28. október kl. 15.52

Eyjar á tímamótum:

Tækifærin blasa við

- meiri bjartsýni og framkvæmdahugur en undanfarin ár

 

Niðurskurður þorskveiðikvóta hefur af eðlilegum ástæðum mikil áhrif á útgerðir og fiskvinnslu og einnig þau bæjarfélög sem byggja á slíkum atvinnuháttum.  Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast við fyrstu sýn, ekki þau sem búist var við og í mörgum tilvikum léttvæg fundin. Víða af landsbyggðinni má heyra þungan tón og svartsýni.

 

Það sem  skiptir máli fyrir Vestmannaeyjar, er hvernig þeir sem fyrir þorskveiðiskerðingunni verða, bregðast við. Í blöðunum í Eyjum hafa undanfarið birst auglýsingar frá fiskvinnslufyrirtækjunum, þar sem auglýst er eftir starfsfólki. Nýlega gerðu Fréttir könnun á því meðal fiskvinnslufyrirtækjanna hvernig þau ætluðu að bregðast  við minni þorskveiðiheimildum.  Jón Svansson hjá Godhaab í Nöf, sagði þá ætla að bíða átekta og sjá hvernig mál þróuðust. "Eins og staðan er hjá okkur í dag, þá eru uppsagnir ekki á dagskrá hjá okkur"

Stefán Friðriksson hjá Vinnslustöðinni sagði uppsagnir ekki á dagskrá hjá þeim. "Þvert á móti, við munum bæta við okkur starfsfólki. Nú er síldarvertíð framundan, síðan loðnuvertíð og vetrarvertíð og þá vantar okkur fólk". Stefán sagði skerðinguna á þorskveiðikvótanum ekki leiða til fækkunar á starfsfólki hjá þeim. "Okkar rekstur byggir á fjölbreyttri aflasamsetningu, síld, loðnu, humri, karfa og fleiri tegundum. Niðurskurðurinn hefur því ekki áhrif á fjölda starfa, en hinsvegar veruleg áhrif á afkomu fyrirtækisins og sjómanna".

Hörður Óskarsson hjá Ísfélaginu sagði engar vangaveltur hafa verið um að segja upp starfsfólki. " Við erum mjög stórir í loðnu og síld, en bolfiskvinnslan hjá okkur í fyrra var um 2000 tonn því hefur niðurskurðurinn minni áhrif á okkur en marga aðra". Þá sagði Hörður það líklegt, að þeir muni bæta við starfsfólki á næstu sex til átta mánuðum.

Af þessum svörum forráðamanna stærstu  fiskvinnslufyrirtækjanna, má sjá að þeir ætla ekki að leggjast í vörn, heldur mæta mótlætinu með sóknarleik. Þá hefur mikill kraftur verið í útgerð í Eyjum eins og flestum er kunnugt. Ný skip og endurbyggð hafa komið  með reglulegu millibili og skammt í að enn ein nýsmiðin, Dala-Rafn VE, komi til Eyja og þá er  útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE með skip í smíðum.

Á stað eins og Vestmannaeyjum, sem byggir tilvist sína á útgerð og fiskvinnslu, er lykillinn að framþróun og velmegun,  hvernig gengur til sjávarins. Öll önnur starfsemi  í Eyjum byggir á því. Það má  glögglega sjá að Vestmannaeyjar standa í dag á tímamótum, því svo virðist sem uppveiflu gæti á flestum sviðum og meiri bjartsýni og framkvæmdahugur í Eyjafólki, en undanfarin ár.  Þá hefur fjárhagsstaða bæjarfélagsins gjörbreyst úr því að vera afar slæm í að vera mjög góð. Og bæjarstjórnin vinnur nú sem ein heild að hagsmunamálum Eyjanna og árangurinn eftir því.

Starfsfólk vantar í fjölda starfa, hvort sem er til fiskvinnslu, iðnaðarstarfa eða í störf sem krefjast háskólamenntunar.  Þið unga Eyjafólk, sem beðið hafið eftir tækifæri til að flytjast til Eyja, en ekki fengið atvinnu við hæfi, ykkar tími er kominn, tækifærin blasa við ykkur í Vestmannaeyjum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband