Friðrik Stefánsson á leið í hjartaþræðingu
Landsliðsmiðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson mun ekki leika með Njarðvíkingum í kvöld í undanúrslitum Poweradebikarkeppninnar í körfuknattleik. Friðrik dvaldi stutt á sjúkrahúsi eftir leik Njarðvíkur og ÍR síðasta sunnudag en hann hefur verið að finna til í hjarta þegar hann hefur verið að leika körfuknattleik.
Friðrik verður ekki með Njarðvíkingum í kvöld þegar liðið mætir Snæfellingum þar sem leikmaðurinn á að fara í hjartaþræðingu á þriðjudag þar sem kannað verður enn frekar hvað ami að. ,,Það hefur verið vesen í hjartalokum hjá mér sem veldur því að hjartað nær ekki að dæla nægilegu blóði til útlimanna. Eftir leikinn gegn ÍR á sunnudag dvaldi ég á sjúkrahúsi sökum þessa, sagði Friðrik í samtali við Víkurfréttir.
,,Ég hef fundið fyrir þessu þegar ég hef verið að spila en það er ekki von á því að ég fari að hníga niður í leik. Engu að síður fékk ég ekki grænt ljós til þess að spila í kvöld. Ég hef verið frá æfingum síðan eftir leikinn gegn ÍR, sagði Friðrik en bætti því við að of snemmt væri að segja til um nákvæmlega hver staða mála væri og að haldbærari upplýsingar væri að vænta að hjartaþræðingu lokinni.
Friðrik verður á bekknum í kvöld og verður Teiti Örlygssyni innan handar svo þeir félagarnir ættu að geta komið fram með illviðráðanlegt leikskipulag enda rúmlega 200 landsleikja reynsla á baki þeirra samanlögð.
Mynd: Gunnar Freyr Steinsson gunni@mikkivefur.is Friðrik situr á gólfi Ljónagryfjunnar á þarsíðustu leiktíð þar sem hann féll í vægt yfirlið í leik Njarðvíkur og ÍR í úrslitakeppninni. Á myndinni er Friðrik sestur upp og er að jafna sig. Friðrik sagði í samtali við Víkurfréttir að á þessum tíma hefði hann ekki áttað sig á því hvað hefði gerst. vf.is
27. september kl. 15.45 | mbl.is |
Friðrik fyrirliði Njarðvíkinga í hjartaaðgerð
Friðrik Stefánsson fyrirliði úrvalsdeildarliðs Njarðvíkur og miðherji íslenska landsliðsins er á leið í hjartaaðgerð á næstu dögum. Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta. Hann mun því ekki leika með Njarðvíkingum í undanúrslitum Powerade-bikarkeppninnar í kvöld gegn Snæfell.
Ég fer í aðgerð um miðja næstu viku en ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvað er að mér. Þetta lýsir sér með þeim hætti að ég fæ mjög öran hjartslátt og síðan líður yfir mig. Ég hélt í fyrstu að þetta væri ofþornun eða eitthvað álíka en eftir leik gegn ÍR um s.l. helgi fór ég á spítala og lét rannsaka þetta betur," sagði Friðrik við mbl.is nú rétt í þessu.
Í kjölfarið fór ég beint í rannsóknir og hjartalæknirinn sem hefur skoðað mig að undanförnu vonast til þess að ég geti farið að spila fljótlega eftir þessa aðgerð," sagði Friðrik í dag en er 31 árs gamall.
Nánar verður rætt við Friðrik í Morgunblaðinu á morgun.
Flokkur: Dægurmál | Föstudagur, 28. september 2007 (breytt kl. 22:14) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.