Á ferðalagi á undan dauðanum

30b3436cd4c2083f30d6f293898fe1b4_Enskur

26. september kl. 16.06

Frægð, frami, niðurlæging og upprisa í Kristi

Á ferðalagi undan dauðanum

Athyglisvert viðtal við Clifford Edwards, 62 ára gamlan Bret

 
Clifford framan við farkostinn.

Margir hafa eflaust tekið eftir blárri tveggja hæða rútu sem lagt hefur verið hér og þar um bæinn síðustu daga. Hún er skreytt kristilegum skilaboðum þar sem -Jesús elskar þig, er einna mest áberandi. Bílstjórinn og eigandi rútunnar er Clifford Edwards, 62 ára gamall Breti sem átt hefur erfitt en jafnframt atburðaríkt lífshlaup.            

 

 Hann hefur upplifað allt frá því að lifa í ríkidæmi sem frægur söngvari og lifa á götunni til 20 ára. Nú dvelst hann í þeim farakosti sem býðst þá stundina og lætur Jesús leiða sig áfram á ferð sinni.

Ætlaði sér ekki að drekka

 „Ég ætlaði mér aldrei að smakka vín," sagið Clifford en faðir hans var mikill drykkjumaður og gerði heimilislífið nánast óbærilegt fyrir fjölskylduna. Þegar faðirinn kom heim af barnum um helgar fór fjölskyldan í langan göngutúr og kom ekki aftur fyrr en hann var farinn í rúmið til að sofa úr sér. Skólagangan var Clifford erfið því heimilisástandið hafði áhrif á frammistöðu hans og hann var því alltaf lægstur í bekknum. Kennararnir tóku hann oft fyrir eða börðu hann með kennaraprikum fyrir að standa sig illa.

  „Ég var lagður í einelti af samnemendum og kennurum," segir Clifford sem var gefinn einstök söngrödd sem seinna gerði hann frægan og í skólanum var hann oft látinn syngja. Það olli öfund hjá samnemendum og var honum því mikið strítt. Yngri árin voru því enginn dans á rósum en hann hafði gaman af að syngja og byrjaði að syngja með kirkjukórnum um sjö ára aldur. Nítjá ára hóf hann að syngja á börum og skemmtunum og brátt bókaði hann sig á stærri stöðum og sá frægðina í hyllingum. Þá var það eitt kvöldið eftir sérstaka framkomu sem honum var boðið að skála í kampavíni sem hann þáði. Eftir það lá leiðin niður á við því honum líkaði það frelsi sem fylgdi áfenginu. Hann eignaðist mikið af peningum og vini sem alltaf voru til í að skemmta sér með honum en þegar hann datt af sviðinu sökum ölvunar var ferli hans skyndilega lokið. Peningarnir hurfu smám saman og vinirnir í kjölfarið svo leið hans lá í strætið með flöskuna sér við hlið.

  „Ég var í strætinu, bjó í pappakössum rétt við Thamesánna. Fjölskylda mín reyndi að taka mig inná heimilið en ég var ekki húsum hæfur. Ég kunni ekki einu sinni að nota hníf og gaffal svo þau gáfust upp á mér og ég fór aftur í strætið," segir Clifford. Hann svaf á bekkjum undir berum himni, drakk og betlaði. „Ég ætlaði að byrja uppá nýtt en það var enginn tilbúinn til að gefa mér tækifæri," segir Clifford. Hann hafði misst alla von og fannst hann vera einskis virði.

 Hann gerði margar tilraunir til að hætta að drekka og með hjálp afeitrunar á vegum Hjálpræðishersins tókst honum það í fjögur ár. Á þeim tíma, árið 1980, kynntist hann konu sem hann trúlofaðist og var mjög hamingjusamur. Það var ekki fyrr en hann fór í heimsókn til heimabæjar síns að fagna brúðkaupinu með ættingjum sínum og brúðhjónunum var gefin kampavínsflaska að gjöf að hann smakkaði vín aftur. Það var sama sagan, hann hafði enga stjórn á drykkjunni og var áður en hann vissi af orðinn dauðadrukkinn og búinn að missa tökin.

 

            Hann var úrskurðaður dauðvona

  „Árið 1996 fékk ég þann úrskurð að vera með óbætanlegar heilaskemmdir og lifrarskemmd. Ég átti sex mánuði ólifaða, ég átti enga von," segir Clifford. Hann hafði verið slappur og fór á endanum til læknis sem færði honum þessar fréttir. Það var ekki fyrr en þá að hann leitaði til guðs og bað hann um hjálp. Hann svaf eins og engill þessa nótt og daginn eftir þegar hann vaknaði fannst honum eitthvað hafa breyst. Hann var ennþá dauðvona en það truflaði hann ekki. Hann fór og fann sér landakort, opnaði það af handahófi og það var eins og einhver rödd innra með honum segði sér:

 

„Farðu og syngdu á götum úti og segðu öllum sem tala við þig að ég elski þá og þrái að kynnast þeim betur."

Hann fór af stað með eitt pund í vasanum sem er jafngildi 120 íslenskum krónum og Biblíuna. Honum var sagt að hann ætti tvær vikur eftir ólifaðar þegar hann hélt af stað í þriggja vikna ferðalag, það var árið 1996. Fyrst ferðaðist hann með lest en svo voru honum gefnir faraskjótar, bíldruslur, litlir sendiferðabílar og loks rútur. Árið 2001 greindist hann með krabbamein og það þurfti að skera í burtu stóran hluta af hálsinum á honum og svolítið af öxlinni. Honum voru enn á ný gefnar örfáar vikur en tíminn leið og dauðinn lét ekki sjá sig. Hann lét ekki deigan síga þrátt fyrir þennan dóm og hélt áfram að ferðast og syngja guðsorð fyrir alla sem heyra vilja.

Hann ferðaðist um  Bretlandseyjar endilangar, um Færeyjar, til Íslands og alla leið út að Síberíu. Í dag er hann að koma í annað skiptið til Íslands og jafnframt annað skiptið til Vestmannaeyja. „Mér finnst frábært að koma til Vestmannaeyja, mér finnst eins og fólkið hér sé eins og fólk var fyrir fimmtíu árum. Ég held að allir sem búa á eyjunni hafi keyrt framhjá rútunni minni og í gær komu strákar að tala við mig og fengu að fara í bíltúr með mér. Hér er náttúran fögur en hún á ekkert í hve yndislegt fólkið er," segir Clifford.

 

Ekki á vegum kristni félags

„Það eru svo margir sem halda að ég sé fulltrúi einhvers safnaðar. Ég er ekki á vegum neins og ég er hvorki Lútherstrúar né kaþólskur eða nokkuð annað. Ég hef samt sem áður ekkert á móti söfnuðum en ég er bara óháður. Ég trúi á Jesús og Guð og ég er hér bara til að segja að hann elskar ykkur. Ég vil gefa fólki góðar minningar sem það síðan tengir við Jesús og ég hef ofsalega gaman af börnum. Ég leyfi þeim oft að kíkja uppúr topplúgunni á rútunni og það finnst þeim ógleymanleg upplifun," segir Clifford.

Ævi hans hefur verið erfið en honum líður vel í dag. Hann á góða vini sem hlaupa ekki frá honum þegar peninga skortir og honum finnst tilveran brosa við sér. Hann vonar að fleiri Vestmannaeyingar heimsæki sig í rútuna áður en hann fer héðan því hann hefur gaman af gestum og er til í að spjalla við hvern sem er um hvað sem er. Hann segist oft hafa hjálpað fólki með að hlusta á slæma hluti sem það hefur borið í farteskinu og gefið þeim frelsi. Hann segist aldrei leggja þessa hluti á minnið því það er ekki hans að dæma, hans er bara að hlusta og reyna að hjálpa. Þó áfangastaðurinn sé ekki alltaf ákveðinn, né dvalartíminn er hann mjög ánægður með sitt hlutverk. Hann lýsir því svo: „Lífsverk mitt er einmanalegt en ég er aldrei einn."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband