| 26. september kl. 11.45 | eyjar.net |
Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun
11,4 milljónir kr til Vestmannaeyja
Á spjallborði www.eyjar.net hafa komið upp nokkrar áhugaverðar hugmyndir í nýsköpun tengdum Vestmannaeyjum. Eitt er að fá góða hugmynd og annað er að hrinda henni í framkvæmd og finna fjármagn til þess að koma hlutunum af stað.
www.eyjar.net sendu nokkrar spurningar á Hrafn Sævaldsson ráðgjafa hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og spurðum Hrafn út í Vaxtarsamning Suðurlands og Vestmannaeyja.
Svör Hrafns birtast hér fyrir neðan:
Hvert er markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja?
-Markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja (VSSV) eru eftirfarandi:
- Að efla Suðurland sem eftirsóttan valkost til búsetu.
- Að auka samkeppnishæfni svæðisins og efla hagvöxt.
- Að þróa og styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu.
- Að fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vörum og þjónustu.
- Að nýta möguleika sem skapast með aðild að alþjóðlegum verkefnum.
- Að laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu.
Eru mörg verkefni sem hafa fengið styrk og eru staðsett í Vestmannaeyjum?
- Á þessu fyrsta starfsári samningsins hefur verið úthlutað 38,7 mkr. fyrir árið 2007 og 4,0 mkr. fyrir árið 2008. Samtals 42,7 mkr. 16 Verkefni hafa verið styrkt, 4 verkefnum hefur verið hafnað og fjöldi verkefna er í vinnslu á öllu Suðurlandi.
- Samtals hafa verið samþykkt framlög til 5 verkefna að upphæð 11,4 mkr til Vestmannaeyja á árinu 2007. Fjöldi verkefna er í umsóknarferli eða er á teikniborðinu. Þau verkefni sem fengið hafa stuðning frá samningnum eru:
1.Uppbygging söguseturs um Tyrkjaránið 1627, Tyrkjaránssetur. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa. VSSV styrkir verkefnið um 750.000. kr..
2. Efling Rannsókna- og háskólastarfs í Eyjum. Verkefnið er flokkað innan Mennta- og rannsóknaklasa. VSSV styrkir verkefnið um 3,0 mkr.
3. Verðmætaaukning sjávarfangs, humarklær, vöruþróun
Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV styrkir verkefnið um 3,75 mkr.
4. Köfunarskóli í Vestmannaeyjum. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa. VSSV styrkir verkefnið um 2,5 mkr.
5. Aukin arðsemi humarveiða: Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV samþykkti stuðning við verkefnið á 1. ári, samtals 1,4 mkr, auk þess sem ráðið lýsti yfir áhuga á frekari stuðningi við verkefnið í framhaldinu á verkefninu.
Hvernig er umsóknarferlinu háttað?
-Atvinnuþróunarfélag Suðurlands er framkvæmdaraðili samningsins og hefur félagið skrifstofu í Hvíta húsinu svokallaða að Strandvegi 50 í Vestmannaeyjum. Ef fólk telur sig hafa eitthvað áhugavert verkefni fram að færa, mælum við með því að það kynni sér starfsemi klasa og vaxtarsamninga á heimasíðu Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja, www.vssv.is., mjög góðar upplýsingar er þar að finna um allt sem við kemur samningnum og framkvæmd hans. Þar er að finna m.a. fundargerðir framkvæmdaráðs, en ráðið tekur afstöðu til innsendra umsókna. Til að átta sig betur á umsóknarferlinu, er ágætt að lesa umsagnir um fyrri umsóknir. Að sjálfsögðu getur fólk alltaf haft samband og komið við á skrifstofu félagsins, hvort heldur í Vestmannaeyjum eða á Selfossi. Starfsmenn félagsins veita áhugasömum aðilum handleiðslu í gegnum ferlið, fólki að kostnaðarlausu.
Á www.eyjar.net/spjall eru nokkrar áhugaverðar atvinnuhugmyndir, telurðu að það sé möguleiki fyrir þær að sækja um styrk?
- Við hvetjum þá aðila sem telja sig hafa eitthvað fram að færa að koma sér í samband við okkur. Oft á tíðum er um góðar hugmyndir að ræða, en missa flugið þegar það á að koma hugmyndunum í framkvæmd. Því hefur handleiðsla okkar í upphafi og í framhaldinu verið mörgum mikilvæg aðstoð. Hugtakið "miði er möguleiki" á vel við í umræðunni um þessi mál, ef fólk hefur verið með einhverja hugmynd í maganum í langan tíma hvetjum við það til að gera eitthvað í málinu, fyrsti staðurinn til að ræða málin getur verið hjá okkur.
Hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda
- Skilyrði fyrir fjárstuðningi VSSV er að viðkomandi verkefni tengist uppbyggingu klasa, svo sem stuðningi við stofnun tengslanets, fræðslu og þjálfun, rannsókna- og greiningarvinnu, ráðgjöf eða sameiginleg þróunar- og samstarfsverkefni sem metin eru í hverju tilfelli. Ekki er heimilt að veita styrki til fjárfestinga í fyrirtækjum eða reksturs fyrirtækja eða opinberra stofnana, auk þess sem stofnkostnaður er ekki styrkhæfur.
Hversu oft er styrkjum útdeilt á ári og hversu mikið
-Tekið er á móti umsóknum til VSSV allt árið. Framkvæmdaráð samningsins tekur síðan afstöðu til umsóknanna. Ráðið fundar 10 - 12 sinnum á ári og oftar ef þurfa þykir, allt eftir fjölda umsókna sem liggja fyrir.
- Atvinnuþróunarfélag Suðurlands veitir síðan smástyrki, einskonar hvatningastyrki, einu sinni til tvisvar á ári. Undanfarin ár hefur verið úthlutað einu sinni á ári að vori til. Í ár verður hins vegar úthlutað styrkjum tvisvar sinnu, fyrra skiptið var s.l. vor og síðan er umsóknarfrestur að renna út n.k. föstudag, 28. september vegna hauststyrkja félagsins. Úthlutað verður 5 milljónum til áhugaverðra verkefna að þessu sinni. Styrkirnir hafa verið á bilinu 100 - 350 þúsund króna. Umsóknirnar eru metnar út frá ýmsum fyrirframskilgreindum þáttum. Styrkirnir hafa verið auglýstir vandlega í fjölmiðlum á Suðurlandi í mánuð, en frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins www.sudur.is Heildarstyrksupphæð sem Atvinnuþróunarfélagið mun veita á þessu ári verður því um 10 mkr.
Hjálpið þið fólki við að útfæra atvinnuhugmyndir
- Já, eins og bent hefur verið á hér að ofan veitum við áhugasömum aðilum endurgjaldslausa aðstoð við framgang hugmynda sinna. Við bendum á heimasíðu Atvinnuþróunarfélag Suðurlands www.sudur.is og heimasíða VSSV www.vssv.is .
www.eyjar.net þakkar Hrafni kærlega fyrir svörin og hvetur eyjamenn með hugmyndir að hafa samband við Hrafn og starfsfólk Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.
Flokkur: Dægurmál | Fimmtudagur, 27. september 2007 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.