24. september kl. 15.45 | ||
Sigurður Vilhelmsson skrifar: | ||
Bærinn tekur frumkvæði í uppbyggingu Setursins | ||
| ||
Í tillögum þeim er bæjarstjórn Vestmannaeyja lagði fram um mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar í þorskkvóta kennir ýmissa grasa. Tillögurnar eru um margt metnaðarfullar og sýna að bæjaryfirvöld eru reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að draga úr því höggi sem sveitarfélagið verður fyrir. Því eru það nokkur vonbrigði að ríkisstjórnin skuli skella skollaeyrum við flestu því sem lagt er fram í tillögum bæjarins. Eitt er það þó sem vekur nokkra athygli og það eru nýstárlegar aðferðir bæjarstjórnar við að fá ráðherra menntamála til samstarfs um uppbyggingu Rannsókna- og fræðasetursins. Bæjaryfirvöld eru greinilega búin að gefast upp á að bíða eftir ríkinu í þeim efnum og fer fram á að fá að fjármagna uppbygginguna úr bæjarsjóði. Bærinn býðst til þess að kaupa húsnæði ÁTVR á neðstu hæð Setursins og í framhaldinu afganginn af Hvíta húsinu af Háskóla Íslands. Eina skilyrðið er að fjármunirnir sem bærinn greiðir fyrir húseignina fari í uppbyggingu setursins. Það er orðið löngu tímabært að gera gangskör í því að byggja upp starfsemina í Setrinu. Einmenningsútibú eru engan veginn til þess fallin að byggja upp það þekkingarsamfélag sem þarf til að halda úti öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi. Of lengi hefur verið beðið eftir því að menntamálaráðuneytið leggi sitt lóð á vogarskálarnar. Það er tímabært að bærinn taki frumkvæðið. Það þarf ekki að bíða lengur. Elliði þarf bara að gera Þorgerði tilboð sem hún getur ekki hafnað. Greinin birtist á www.framsoknarbladid.is |
Flokkur: Dægurmál | Þriðjudagur, 25. september 2007 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.