Yfir 100 Drullusokkar í Eyjum
Mótorhjólaklúbburinn Drullusokkarnir í Vestmannaeyjum hélt aðalfund sinn nýlega með miklum stæl en klúbburinn hefur nú 124 meðlimi innan sinna raða sem telja verður einhverskonar Íslandsmet miðað við höfðatölu eyjaskeggja.Tryggvi Sigurðsson formaður klúbbsins segir í samtali við Vísi að þar að auki séu þeir með útibú á "Norðureyjunni" eins og hann kallar fastalandið.
"Það eru tvö skilyrði fyrir því að gerast meðlimur í Drullusokkunum," segir Tryggvi. "Í fyrsta lagi þarf viðkomandi að eiga mótorhjól og í öðru lagi verður hann að hafa átt heima í Vestmannaeyjum einhvern hluta æfinnar."
Það liggur ljóst fyrir að hluti meðlima býr nú á "Norðureyjunni" en Tryggvi segir að sérstakt embætti innan klúbbsins, Íslandsjarlinn, sjá um málefni þeirra. Núverandi Íslandsjarl er Steini Tótu. Hinn þekkti Vestmannaeyingur Árni Johnsen er ekki meðlimur sem stendur þar sem nokkuð er síðan hann seldi mótorhjól sitt. "Ef Árni kaupir hjól á ný gerum við hann að heiðursfélaga um leið," segir Tryggvi. "Árni er okkar maður í Eyjum."
Flokkur: Dægurmál | Þriðjudagur, 18. september 2007 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.