ÍBV í eldlínuni um helgina

15. september kl. 13.33

 

Leik ÍBV og Grindavíkur frestað

Leikið á morgun en óljóst með leiktíma

 

Leik ÍBV og Grindavíkur í 1. deild karla í knattspyrnu, sem átti að hefjast núna klukkan 14.00 hefur verið frestað til morguns.  Ekki hefur verið flugfært milli lands og Eyja í dag eða í morgun og enn er ófært.  Líklegt er að leikurinn verði á sama tíma á morgun en það hefur ekki fengist staðfest.

Síðar í dag fer svo fram handboltaleikur milli ÍBV og Fram í N1-deildinni.  Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort fresta eigi þeim leik en um leið og þær upplýsingar liggja fyrir verður greint frá því hér á www.sudurland.is/eyjafrettir og sömuleiðis með nýjan leiktíma í knattspyrnuleiknum.

 

15. september kl. 14.32

 

Báðum leikjunum frestað

Á sama tíma á morgun

 

Nú er komið í ljós að bæði knattspyrnu- og handboltaleik sem fram áttu að fara í Vestmannaeyjum í dag hefur verið frestað.  Í knattspyrnunni átti ÍBV að leika gegn Grindavík en í handboltanum átti ÍBV að spila gegn Fram í fyrsta leik Íslandsmótsins.  Báðir leikirnir munu hins vegar fara fram á morgun, á sama tíma.

Þannig hefst hinn mikilvægur leikur í knattspyrnunni klukkan 14.00 en handboltaleikurinn klukkan 17.00.  Eins og áður hefur komið fram er stuðningsmönnum ÍBV boðið á leikina báða af nokkrum fyrirtækjum í Eyjum og stendur það tilboð að sjálfsögðu áfram.  Forráðamenn liðanna hvetja stuðningsmenn ÍBV að fjölmenna á leikina báða, nú er engin afsökun enda frítt inn.

1. deild karla

Sanngjarn sigur gegn Grindvíkingum

Enn er von

 

Leikmenn ÍBV halda voninni enn lifandi um úrvalsdeildarsæti en í dag lögðu Eyjamenn Grindvíkinga að velli 2:1 á Hásteinsvellinum.  Aðstæður til knattspyrnuiðkunnar í dag voru nokkuð erfiðar, austan rok og skítakuldi.  Hins vegar var leikurinn ágætlega fjörugur og úrslitin góð.

 

Grindvíkingar byrjuðu þó betur í leiknum og strax á 9. mínútu var staðan orðin 0:1.  Mounis Abandour skoraði markið með glæsilegu skoti utan teigs, algjörlega óverjandi fyrir Henrik Bödker, Danann í marki ÍBV.  En segja má að eftir þetta hafi Eyjamenn tekið völdin á vellinum þrátt fyrir að leika gegn vindinum.  Tuttugu mínútum eftir mark Grindvíkinga jöfnuðu Eyjamenn svo en eftir glæsilega rispu Atla Heimissonar upp vinstri kantinn kom Ian Jeffs boltanum loksins í netið, klárlega ekki fallegasta mark sumarsins en það telur engu að síður.
Aðeins þremur mínútum síðar átti Atli svo aftur góða rispu upp kantinn og að lokum barst boltinn til Andra Ólafssonar sem skaut framhjá úr upplögðu færi og staðan í hálfleik var því 1:1.

Síðari hálfleikur fór fjörlega af stað, Eyjamenn voru mun meira með boltan framan af hálfleiknum en sköpuðu sér ekki mörg færi undan vindinum.  Á 61. mínútu vildu Eyjamenn fá víti þegar boltinn virtist fara í hönd Óla Stefáns Flóventssonar en ekkert var dæmt.  Tíu mínútum síðar kom svo sigurmarkið en þá fékk Augustine Nsumba boltann við vítateig gestanna, sneri af sér varnarmann og skaut í annann.  Ian Jeffs náði hins vegar frákastinu og lagði boltann laglega í netið og skoraði þar með annað mark sitt í leiknum.

Eftir þetta lögðu Eyjamenn áherslu á að halda fengnum hlut og lögðu reyndar á köflum full miklar áherslu á varnarleikinn því um tíma voru níu af tíu útileikmönnum liðsins komnir inn í eigin vítateig.  En Eyjamenn fengu nokkrar skyndisóknir og þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma komst varamaðurinn Ingi Rafn Ingibergsson einn í gegn.  Hann náði að leika á markmanninn en í stað þess að skjóta strax á markið ákvað hann að leggja boltann fyrir sig og varnarmaður komst fyrir og sóknin rann út í sandinn.  En stuttu síðar var leikurinn úti og Eyjamenn fögnuðu mikilvægum sigri en gestirnir gengu vonsviknir af velli, enda hefði jafntefli dugað þeim til að tryggja sér sæti í úrvalsdeild og gera út um vonir ÍBV.

Enn er von
Eins og áður sagði eiga Eyjamenn enn von um að komast í úrvalsdeild að ári.  ÍBV er enn sem fyrr í fjórða sæti, aðeins þremur stigum á eftir Grindavík og fjórum á eftir Fjölni.  Bæði eiga þau hins vegar leik til góða en liðin mætast einmitt næstkomandi þriðjudag í Grindavík.   Hins vegar er deginum ljósara að ÍBV verður að vinna báða leikina sem eftir eru, annars vegar gegn Þrótti á útivelli næstkomandi laugardag og gegn Fjölni á heimavelli föstudaginn 28. september. 

Staðan:
1. Þróttur 20 14 2 4 42:22 44
2. Fjölnir 19 13 3 3 54:20 42
3. Grindavík 19 13 2 4 36:18 41
4. ÍBV 20 11 5 4 36:19 38
5. Fjarðabyggð 20 10 4 6 22:14 34
6. Þór 20 5 6 9 31:37 21
7. Stjarnan 19 5 4 10 36:39 19
8. Leiknir R. 19 4 7 8 19:25 19
9. Víkingur Ó. 20 5 4 11 22:32 19
10. Njarðvík 20 3 8 9 19:30 17
11. Reynir S. 20 3 7 10 22:52 16
12. KA 20 4 4 12 12:43 16

16. september kl. 19.02

 

Okkar markmið að halda möguleikanum opnum eins lengi og við getum

segir Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV og segir margt jákvætt að gerast í knattspyrnunni

 

Heimir Hallgrímsson var að vonum ánægður með sigurinn gegn Grindavík í dag en Heimir segir þó að leikurinn breyti stöðu liðsins ekki, enn þarf ÍBV að vinna alla sína leiki og treysta á úrslit úr öðrum ef liðið ætlar sér upp.  Þjálfarinn var ekki sáttur við dómgæslunar þegar blaðamaður ræddi við hann og var sömuleiðis óhress með hvernig ÍBV byrjaði leikinn.

 

„Við spiluðum kannski ekki alveg eins og við ætluðum. Við lendum á móti vindi í fyrri hálfleik og þetta var erfitt til að byrja með. Grindvíkingarnir komu grimmir inn í leikinn og við áttum erfitt með að sækja til að byrja með. Svo gaf dómarinn þeim þetta mark með því að blokka varnarmanninn okkar þegar þeir skora. Mér finnst nú lágmark að menn biðjist afsökunar á því, þó að það verði ekki tekið til baka þá er lágmark að biðjast afsökunar. Annars fannst mér halla mjög á okkur í dómgæslunni. Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að kvarta undan dómgæslunni en ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst halla mjög á okkur."

Heimir sagði ennfremur að Eyjamenn hafi ekki breytt um taktík í síðari hálfleik þrátt fyrir að leika með vindinn í bakið.  „Þetta var bara spurning um hvar liðið liggur og við lágum bara framar í seinni hálfleik. Við þekkjum orðið þennan vind svo vel að við verðum að spila niðri. Þegar við gerðum það þá gekk vel en um leið og við settum hann upp í loft þá gekk illa."

En það hlýtur að vera sætt að leggja Grindavík að velli sem hefur verið á toppi deildarinnar í nánast allt sumar.  „Þetta var sætur sigur og við eigum ennþá möguleika á að vera fyrir ofan Grindavík. En þessi sigur í raun breytir engu fyrir okkur. Staðan okkar er nákvæmlega sú sama og hefur verið síðustu fjóra leiki, ef við töpum stigum þá erum við úr leik. Við erum lifandi enn, með sigri gegn Þrótti verðum við enn á lífi í þessari baráttu, sama hvernig aðrir leikir fara og það er okkar markmið það sem eftir er, að halda möguleikanum opnum eins lengi og við getum."

Og Heimir segir að hið jákvæða, bæði í herbúðum ÍBV og utan þeirra skili sér í bættum leik.  „Það sem er jákvætt í þessu hjá okkur er að við erum að nýta þau færi sem við fáum. Í undanförnum fjórum leikjum höfum við verið að skora nokkuð mörg mörk og það er margt jákvæðara í okkar sóknarleik núna en var kannski fyrr í sumar. Það er líka jákvæðara andrúmsloft í þessu, bæði hjá okkur og í bænum gagnvart knattspyrnunni eins og með knattspyrnuhúsið, og það smitast til leikmanna," sagði Heimir að lokum.

16. september kl. 19.07

N1-deildin:

Klaufalegt í lokin hjá ÍBV

köstuðu frá sér möguleika á sigri með tveimur brottvísunum

 

Segja má að Eyjamenn hafi kastað frá sér möguleika á sigri þegar liðið lék gegn Fram í dag.  ÍBV var undir allan síðari hálfleikinn en á lokamínútunum jafnaði Zilvinas Grieze metin, 29:29 þegar aðeins tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum.  Eyjamenn voru tveimur leikmönnum fleiri og höfðu því alla möguleika á sigri en tveir frekar klaufalegir brottrekstrar undir lokin gerði út um vonir Eyjamanna.  Framarar skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins og unnu 29:32. 

Eyjamenn komu í raun mörgum á óvart í dag og Framarar, sem undanfarin ár hafa verið eitt af sterkari liðum landsins, þurftu virkilega að hafa fyrir sigrinum.  Þannig var nánast jafnt á öllum tölum í fyrri hálfleik en Framarar voru þó einu marki yfir í hálfleik, 14:15.

Gestirnir fóru svo mun betur af stað í síðari hálfleik, komust mest fimm mörkum yfir en með mikilli baráttu náðu Eyjamenn að vinna sig aftur inn í leikinn.  Það var ekki síst fyrir tilstilli Friðriks Þór Sigmarssonar, en hann fór hreint á kostum í markinu á lokakaflanum eftir að hafa leyst Kolbein Arnarson af hólmi, sem varði líka vel í leiknum.  Þrátt fyrir tapið geta Eyjamenn borið höfuðið hátt, liðið er klárlega litla liðið í deildinni í vetur en með sömu baráttu er ljóst að mörg af "betri" liðum deildarinnar munu tapa stigum í Eyjum.

Mörk ÍBV: Zilvinas Grieze 7, Janis Grisnavos 6, Sindri Haraldsson 5, Grétar Þór Eyþórsson 4, Sigurður Bragason 3, Svavar Vignisson 2, Eyþór Björgvinsson 1, Leifur Jóhannesson 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 12, Friðrik Þór Sigmarsson 7

16. september kl. 20.42

N1. deildin:

Ætlum að hafa gaman af þessu og bæta okkur í hverjum leik

segir Sigurður Bragason, fyrirliði ÍBV eftir fyrsta leik í handboltanum

 

Þrátt fyrir tapið í dag var Sigurður Bragason, fyrirliði ÍBV nokkuð brattur.  Hann tekur undir það að búast megi við erfiðum vetri og að byrjunin á Íslandsmótinu verði erfið.    „Jú vissulega. Við vorum að spila gegn hörkuliði, sem var Íslandsmeistari fyrir tveimur árum og þriðja sæti í fyrra. Auk þess höfum við misst sterka leikmenn frá því í fyrra þannig að jú, það mátti kannski alveg búast við þessu."

En þið náðuð að hanga í Frömurum lengst af í leiknum.
„Þetta var ekkert hangs hjá okkur. Við vorum búnir að jafna þegar þetta leiðindaatvik kemur þegar tvær mínútur eru eftir og við tveimur fleiri. Þá fæ ég brottvísun, sem var rangur dómur að mínu mati en að öðru leyti stóðu þeir sig vel dómararnir. Svo verða einhver læti á bekknum og við missum annann út af og verðum fjórir á móti fjórum. Það var í raun í lagi þangað til að þeir fengu sína menn inn á aftur."

Var þessi vendipunktur kannski reynsluleysi nýliðanna?
„Þetta var nú ég sem fékk brottvísunina og ég er þrítugur þannig að ég efast um að þetta hafi verið reynsluleysi. Svo fáum við stráka inn eins og Friðrik Þór Sigmars Þrastarson og hann kemur okkur einfaldlega einn í leikinn aftur. Svo var stemmningin frábær, bæði hjá okkur og áhorfendum og við bara berjumst."

Hvað með veturinn, verður hann erfiður?
„Já klárlega og við vitum það. En við ætlum okkur að hafa gaman af þessu, bæta okkur í hverjum leik og gera okkar besta. Við erum klárlega litla liðið í deildinni en það er bara gaman að stríða þeim eins og við gerðum í dag. Framarar voru með dómarana með sér, þeir þurftu þess til að vinna okkur," sagði Sigurður að lokum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband