Elli eyjabæjó ánægður með svokallaða mótvægisaðgerð

| 12. september kl. 22.03 | eyjar.net |

eftir Elliða Vignisson bæjarstóra

Myndaleg fyrstu skref mótvægisaðgerða

Skjöldurinn er þó enn skörðóttur

Fyrstu skrefin í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnar eru tekin af myndug skap.  Ég tel að ríkisstjórn hafi með þeim markað ákveðna stefnu og á von á því að innan skamms verði næstu skref stigin.  Hvað varðar sértækar aðgerðir til styrktar Vestmannaeyjum þá bera þar hæst 20 milljóna styrkur til rannsókna- og fræðasetursins, framlag til eflingar framhaldsskólans og tvö störf hjá Nýsköpunarstofu Íslands. 

Þá koma áframhaldandi samningar við Flugfélag Íslands til með að styrkja ferðþjónustu hér í Eyjum og þá ekki síst það að bæta 3. ferðinni við yfir sumartímann.  Hinsvegar er öllum ljóst að fleiri sértækar aðgerðir verða að koma til ef á einhvern hátt á að bæta þau skörð er sett voru í skjöld okkar Eyjamanna með því að skerða hér efnahag um 3.6 milljarða á ári. Um leið og ég hrósa stjórnvöldum fyrir fyrstu skrefin þá myndi ég vilja að ríkisstjórn Íslands taki fastar á vanda sjávarútvegsins td. með því að fella veiðigjald alveg niður auk þess sem enn hefur ekkert verið minnst á breytingar á þeim misrétti sem felst í byggðarkvóta.  Þá þarf að stórefla þorskrannsóknir og tilboð Vestmannaeyjabæjar og atvinnulífsins hér um að leiða það starf og greiða að hluta stendur enn.  Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld þiggi þá útréttu hönd.   Ég hef í aðdraganda þessara ákvarðana verið í góðu samstarfi við Árna Matthisen og Össur Skaprhéðinsson auk flestra þingmanna sunnlendinga.  Slíkt samstarf er forsenda árangurs og við leggjum mikið upp úr áframhaldandi samstarfi og viljum áfram leiða starf varðandi þær mótvægisaðgerðir er snúa að Vestmannaeyjum.  Það sem nú hefur verið tilkynnt er sem sagt gott skref í rétta átt en skjöldurinn er enn skörðóttur og því ætlum við að breyta.

Gott ef satt er.


| 12. september kl. 23.25 | ruv.is |

Ósátt með mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar munu ekki gagnast þeim sem helst þurfa á þeim að halda. Þetta segir Grétar Mar Jónsson þingmaður frjálslynda flokksins. Hann segir ekki hægt að tala um verulegar mótvægisaðgerðir án þess að þær feli í sér grundvallarbreytingar á núverandi kerfi.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru síður en svo sáttir við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til þess að mæta skerðingu á þorskkvóta. Grétar Mar segir aðgerðirnar einfallega ekki nógu markvissar. Hann óttast að þær muni ekki gagnast smærri byggðarlögum og fyrirtækjum á landsbyggðinni sem verða af miklum tekjum við skerðinguna. Hann hefði frekar viljað sjá aðgerðir sem fælu í sér grundvallarbreytingar í greininni.


| 13. september kl. 13.17 | vaktin.net |

Stóraukin ríkisútgjöld, ávísun á verðbólgu

- Jón Magnússon skrifar

Ríkisstjórnin hefur kynnt áætlun sína um að stórauka ríkisútgjöld. Útgjaldaaukninguna kallar ríkisstjórnin mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskafla. Þetta er rangt.

Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin ekki kannað hvaða þörf var á mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar á þorskafla og hverjir töpuðu vegna þess.

Í öðru lagi vegna skorts á þarfagreiningu þá eru meintar mótvægisaðgerðir ómarkvissar.

Í þriðja lagi þá er verið að leggja til gæluverkefna að hluta og hins vegar ávísa fjármunum sem óhjákvæmilegt var að gera en á vitlausum tíma í mörgum tilvikum.

Í fjórða lagi eru ýmis góð og gagnleg verkefni sem leggja á fjármuni til annað væri óeðlilegt þegar rúmir 10 milljarðar eru greiddir úr ríkissjóði. Þessi verkefni eru þó flest þess eðlis að það var ástæða til að bíða með þau meðan ofurþensla er á almenna markaðnum.

Í fimmta lagi koma til landsins 1200 innflytjendur á mánuði til að vinna eða um 15.000 síðustu 12 mánuði. Samt sem áður kalla fyrirtækin enn á meira vinnuafl. Það liggur því ljóst fyrir að ekki var þörf á að fjölga störfum í ofhituðu hagkerfi.

Í sjötta lagi þá er aðgerðum ekki beint til þeirra sem verða fyrir tekjusamdrætti vegna skerðingar þorskvóta.

Í áttunda lagi þá veldur svona mikil útgjaldaaukning úr ríkissjóði aukinni verðbólgu. Ríkisstjórn og Seðlabanki vinna því greinilega ekki saman.

Í níunda lagi þá hafa útgerðarmenn haldið því fram að vegna gjafakvótakerfisins þá hafi hagræðing og framlegð aukist gríðarlega mikið í sjávarútvegi. Fyrirtækin ættu því að geta tekið skammvinnum tímabundnum samdrætti án aðstoðar ríkisvaldsins með sama hætti og önnur fyrirtæki þurfa að gera verði samdráttur hjá þeim. Í því sambandi má minna á að boðaður samdráttur í þorskafla er til þess skv því sem ríkisstjórnin segir að þorskafli verði mun meiri á næsta ári og næstu árum. Aðgerðir hvað fyrirtækin í sjávarútvegi varðar voru því óþarfar miðað við það sem útgerðarmenn og ríkisstjórn hafa haldið fram.

Í tíunda lagi þá á velferðarkerfi að vera fyrir fólk en hvorki fyrir fyrirtæki eða sveitarfélög. Einu mótvægisaðgerðirnar sem þörf gat verið á snéri því að einstaklingum, fólki sem kunni að verða fyrir tekjusamdrætti en ekkert í tillögum ríkisstjórnarinnar snýr að því.

Með eyðslustefnu sinni sem minnir á gamaldags þrautreynda byggðastefnu 9 áratugarins á síðustu öld er ríkisstjórnin að kynda verðbólgubál, auka þrýsting á gengisfellingu krónunnar og auka ríkisútgjöld til muna. Reikna má með eftir þess aðgerð að opinber útgjöld á Íslandi muni nema um helmingi af þjóðarframleiðslu.

Skyldu forsætis- mennta og fjármálaráðherra vera búnir að taka fram söngkverið hennar Ingibjargar Sólrúnar þar sem er að finna ljóðið "Sovét ísland óskalandið hvenær kemur þú.?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband