Rúv.is

 

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 14:59

Þjóðvegurinn áfram lokaður

Þjóðvegurinn milli Víkur og Freysness verður áfram lokaður. Staðan verður endurmetin í fyrramálið. Ekkert skyggni er á þessum kafla vegna öskufoks.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 14:38

Ráðherrar komnir austur

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra komu til Kirkjubæjarklausturs nú skömmu eftir hádegið. Þau funda nú með Haraldi Jóhannessen ríkislögreglustjóra og yfirmönnum almannavarna á svæðinu. Farið verður yfir stöðuna og næstu aðgerðir ræddar. Þá munu ráðherrarnir fara um svæðið og skoða aðstæður.

Eldgos í Grímsvötnum | Erlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 14:29

Ósammála um samræmdar reglur

Afstaða flugmálastjórna í Evrópu er klofin varðandi nýjar reglur um lokanir á lofthelgi, sem settar voru eftir eldgosið í Eyjafjallajökli í fyrra. Deilur Evrópusambandsríkja um hvernig haga skuli reglum þar að lútandi hafa hingað til komið í veg fyrir að hægt væri að setja samræmdar reglur. Þýsk stjórnvöld hafa viljað taka harðar á þessum málum en önnur ríki og krafist þess að lofthelgi verði lokað þegar ösku verður vart í andrúmslofti. Flugfélög gagnrýndu evrópsk yfirvöld í fyrra fyrir að aflýsa flugi þegar tölvuspár sýndu að aska væri í andrúmsloftinu.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 14:23

Eins og dæmigert Kötlugos

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði á upplýsingafundi í stjórnstöð almannavarna í dag að gosið í Grímsvötnum væri af sömu stærðargráðu og dæmigert Kötlugos.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 14:18 Hlusta á hljóðskrá

Hættan fyrir flugvélar ofmetin

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir að þær spár sem liggi til grundvallar því að flugvöllum sé lokað í Bretlandi og á Norðurlöndum ofmeti líklega gjóskumagnið. Hann gagnrýnir seinagang flugmálayfirvalda í nágrannalöndum við að mæla gjóskuna.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 14:07

Gæti þurft að loka flugvellinum

Samkvæmt nýlegri öskuspá er ekki ólíklegt að loka þurfi Keflavíkurflugvelli aftur í kvöld. Að þessu sinni er það ekki ný aska sem veldur heldur gömul. Óvíst er ennþá hvernig staðan verður í eftirmiðdaginn segir Hjördís Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi Isavia. Ný öskuspá kemur út í kvöld og þá gæti þetta hafa breyst. Isavia skoðar nú allar leiðir til þess að meta ástandið en ákveðnar líkur eru á að alþjóðaflugvöllurinn í Keflavík verði lokaður í kvöld. Fólki er áfram ráðlagt að fylgjast með á textavarpinu og á vefnum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 13:04 Hlusta á hljóðskrá

Gosið hraðar bráðnun jökla

Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur telur einsýnt að öskufallið úr Grímsvötnum hraði mjög bráðnun jökla í nágrenninu . Óhemju magn af gosefnum hefur streymt upp úr Grímsvatnaeldstöðinni undanfarna daga. Stór hluti þessara efna hefur fallið sem aska á Vatnajökul og nágrenni, þar á meðal Mýrdalsjökul og Hofsjökul. Helgi segir að þetta hafi mikil áhrif á afkomu jöklanna.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 12:54 Hlusta á hljóðskrá

Víða djúpir öskuskaflar

Svavar Halldórsson, fréttamaður, slóst í för með björgunarsveitarmönnum sem fóru á bæi austan við Kirkjubæjarklaustur að aðstoða bændur. Hann var staddur í Múlakoti á Síðu nú í hádeginu. Þar sagði hann að skyggnið væri um 500 metrar í mesta lagi en mökkurinn verði dekkri og þéttari eftir því sem austar dregur. „Við höfum komið við á bæjum og gengið aðeins um tún og meðfram skurðum og gengið fram á nokkrar dauðar ær," segir hann. Menn eru nú að smala fé í hús.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 12:18 Hlusta á hljóðskrá

Fólk aðstoðað við matarinnkaup

Það er fulldjúpt tekið í árinni að segja að lífið sé farið að ganga sinn vanagang á Kirkjubæjarklaustri og sveitunum í kring. Eftir að rofaði til í nótt og í morgun hefur fólk þó reynt að koma sínu daglega lífi í sem eðlilegastan farveg. Meðal annars með því að kaupa í matinn, sem hefur ekki verið svo einfalt síðustu tvo sólarhingana.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 11:59

Ráðherrar kynna sér aðstæður

Forsætisráðherra og innanríkisráðherra funduðu í morgun með aðgerðastjórn og almannavarnanefnd á Hellu og fóru yfir stöðu mála vegna eldgossins í Grímsvötnum. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að matsáætlun sem ríkisstjórnin bíður eftir gangi samkvæmt áætlun og verði rædd á næsta ríkisstjórnarfundi. Ráðherrarnir munu í dag kynna sér aðstæður á hamfarasvæðinu og m.a. funda með vettvangsstjórn aðgerða á Kirkjubæjarklaustri.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 11:46 Hlusta á hljóðskrá

Munu ekki flytja fé af svæðinu

Landbúnaðarráðherra segir að ekki komi til greina að flytja búfé af gossvæðinu í Skaftárhreppi og að landsmenn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því í framtíðinni að neyta kjöts af skepnum frá svæðinu.

Eldgos í Grímsvötnum | Erlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 11:36 Hlusta á hljóðskrá

Óvissa með flug í Noregi

Mikil óvissa hefur verið með flug í Noregi í allan morgun. Nýjar reglur um mat á flugi hafa valdið óvissu. Flugfélög hafa fellt niður ferðir en síðar hefur komið í ljós að ekki var bannað að fljúga. Flugvellinum í Stafangri var lokað um tíma í morgun en hann er nú opinn á ný. Síðdegis er búist við að nýtt öskuský komi yfir sunnanvert landið.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 11:25 Hlusta á hljóðskrá

Bændur athuga með búpening

Sauðfé hefur hraktist í blindni undan öskufoki og leitað ofan í skurði. Í gær fann einn bóndi meri og folald ofan í skurði, það tókst að bjarga merinni en folaldið druknaði. Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir á Kirkjubæjarklaustri segir að í morgun hafi rofað til þó að enn fjúki askan um allt en nú gefist betur færi á að huga að því fé sem ekki náðist á hús eða heim undir hús í rennandi vatn og ómengað fóður.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 11:12 Hlusta á hljóðskrá

Aðstoða bændur við að smala fé

Það rofaði til á Kirkjubæjarklaustri í morgun en nú hefur lygnt og þá dimmir á ný. Björgunarsveitarmenn aðstoða nú bændur í Landbroti og víðar við að koma búfé í skjól. Baldur Ólafsson sem er í vettvangsstjórn björgunarsveitanna segir að staðan sé góð miðað við aðstæður. „Það bíða okkar verkefni til að leysa. Aðallega aðstoð við bændur við gegningar og fleira," segir hann. Björgunarsveitarmenn hafa í morgun heimsótt alla bæi til að meta ástandið. „Ég er að bíða eftir að fá skýrslur úr þessum ferðum en mér heyrist að ástandið sé bara ótrúlega gott."

Eldgos í Grímsvötnum | Erlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 10:10

Breskri lofthelgi ekki lokað

Samgönguráðherra Bretlands telur að ekki muni koma til þess að loka þurfi alveg breskri lofthelgi vegna eldgossins í Grímsvötnum. Aflýsa hefur þurft tugum flugferða til og frá Skotlandi í morgun.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 09:26

Isavia segir útlit gott fyrir flug

Útlit með flug - bæði innanland og millilanda er gott fyrir daginn segir Hjördís Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi Isavia. Nú er unnið út frá nýrri öskuspá frá í morgun, sem uppfærð verður um hádegi. Nýja spáin gefur til kynna að ástandið fari batnandi.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 09:07 Horfa á myndskeið

Fé farið að drepast hjá bændum

Hér má sjá viðtal við bónda á Arnardranga í Landbroti.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 08:43

Áfram öskufall í dag

Gosið er stöðugt en nánari fréttir frá vísindamönnum berast þegar líður á morguninn. Áfram er búist við öskufalli víða SA-lands í dag. Í gær klukkan 18:00 hafði gosstrókurinn haldið 3-6 km hæð en vegna veðurfræðilegra aðstæðna hefur hann lækkað talsvert. Ekki voru eldingar í stróknum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 08:08

Flug samkvæmt áætlun eftir hádegi

Icelandair hefur aflýst flugi til Lundúna, Manchester og Glasgow fyrir hádegi í dag en þá er búist við að öskuskýið frá Grímsvötnum verði komið til Bretlands. Annað millilandaflug Icelandair til Evrópu og Bandaríkjanna verður samkvæmt áætlun, en búast má þó við seinkun.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 08:00

Bjartara yfir Kirkjubæjarklaustri

Bjartara er yfir Kirkjubæjarklaustri í dag en í gær. Björgunarsveitarmenn ganga á milli bæja og aðstoða fólk. Um 6 teymi björgunarsveitarmanna eru á staðnum.
  •  
  • 1 af 8


Eldgos í Grímsvötnum | Erlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 07:32

Allt flug frá Stafangri fellt niður

Eldgosið í Grímsvötnum er nú farið að hafa áhrif á starfsemi flugfélaga í Evrópu. Höft hafa verið sett á flug á Norður-Englandi, Skotlandi og Írlandi vegna öskunnar frá Grímsvötnum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 24.05.2011 00:28

Hafa áhyggjur af flutningi skepna

Talsvert öskufall var í gær suður og suðvestur af Vatnajökli. Mikið sandfok var undir Eyjafjöllum undir kvöld en þar er mjög hvasst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | Suðurland | 23.05.2011 22:40 Horfa á myndskeið

Býður sveitungum sínum gistingu

Hótelhaldarinn á Hótel Laka í Landbroti er vongóður um að ferðamannatíminn verði góður þrátt fyrir nú sé allt á kafi í ösku. Hann býður sveitungum sínum gistingu.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | Suðurland | 23.05.2011 22:28

Opnun hringvegar ákveðin á morgun

Guðmundur Ingi Ingason, varðstjóri hjá lögreglunni á Klaustri, var nokkuð sáttur í lok dags þegar fréttastofa ræddi við hann í tíufréttum útvarps. Hann sagði að stjórnvöld á hamfarasvæðinu hafi getaðorðið við öllum beiðnum sem hefðu borist þeim. Von á liðsauka á morgun.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 22:10 Horfa á myndskeið

Birtir til á Kirkjubæjarklaustri

Mikið hefur dregið úr öskufalli á Kirkjubæjarklaustri undanfarnar klukkustundir. Þar var mjög dimmt í morgun þegar öskufallið var hvað mest en eftir því sem líða tók á daginn tók að birta til. Nú undir kvöld var farið að glitta í bláan himininn. Sterkur vindur úr norðri feykir öskunni suður á bóginn, vonandi út á haf.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | Samgöngumál | 23.05.2011 21:46 Horfa á myndskeið

Icelandair aflýsir flugi

Icelandair aflýsti flugi til Lundúna og Manchester og Glasgow nú í morgunsárið.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 20:14 Horfa á myndskeið

Átaksverkefni til aðstoðar eystra

Atvinnulausu fólki og nemum verður boðin vinna við að aðstoða bændur og aðra þá sem hafa orðið illa úti af völdum eldgossins. Fólk hefur verið sent á gossvæðið til að kortleggja aðstæður og leggja til aðgerðir fyrir fund ríkisstjórnar á föstudag.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 20:01 Horfa á myndskeið

Man ekki annað eins öskufall

Hálfdán Björnsson á Kvískerjum í Öræfum segist ekki muna annað eins öskufall og í þessu gosi. Hann telur öskuna ekki skaðlega fyrir gróðurinn en hefur áhyggjur af fuglalífi.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 20:00 Horfa á myndskeið

Alls staðar aska utan Vestfjarða

Askan úr gosinu á Grímsvötnum hefur farið víða. Tilkynningar um öskufall hafa borist veðurstofunni alls staðar af landinu nema af Vestfjörðum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 19:47 Horfa á myndskeið

Aska komin inn á dvalarheimilið

Askan er farin að ryðja sér leið inn á Klausturhóla, dvalarheimili aldraðra á Kirkjubæjarklaustri. Starfsfólk þar hefur kappkostað að halda öskunni úti í dag og þegar fréttamann bar að garði voru handklæði við allar rifur, skálar með vatni á gólfum og starfsfólk gekk um og úðaði vatni í loftið til að minnka rykið.

Eldgos í Grímsvötnum | Erlendar fréttir | Hamfarir | Evrópa | 23.05.2011 19:27 Horfa á myndskeið

Búist við ösku í Skotlandi

Gosið hefur ekki haft nein áhrif á flug nema á Íslandi en samkvæmt spá bresku veðurstofunnar var jafnvel talið að aska næði til Skotlands í gærkvöldi.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 19:00 Horfa á myndskeið

Öskufall næstu daga

Líklegt er talið að hraungos hefjist í Grímsvötnum eftir nokkra daga og þá taki mesta öskufallinu að linna. Ef eldvirknin færist til gætu komið risavaxin hlaup úr jöklinum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 18:58 Horfa á myndskeið

Lofthelgi opnuð yfir Íslandi

Opnað var fyrir lofthelgi yfir Íslandi klukkan sex í kvöld, og er áætlað að fyrstu vélar lendi í Keflavík milli klukkan sjö og átta.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 18:39 Horfa á myndskeið

Ekkert ákveðið um fólksflutninga

Á fundi í Samhæfingarstöð Almannavarna í dag kom fram að þótt dregið hafi úr gosinu þá spúi gígurinn nú 2.000 tonnum af gosefnum út í andrúmsloftið á sekúndu.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 18:23

Enn svartamyrkur á Klaustri

Enn er svartamyrkur á Kirkjubæjarklaustri vegna öskufjúks og öskufalls. Björn Malmquist, fréttamaður, sem þar er staddur segir að ástandið hafi lítið skánað frá því í morgun. Um hádegið hafi rofað aðeins til en mestan hluta dagsins hafi vart séð út úr augum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 18:11

Ráðstefnu í Hörpu aflýst vegna goss

Alþjóðleg ráðstefna íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail, sem halda átti í Hörpu á morgun, fellur niður vegna eldgossins í Grímsvötnum. Hátt í 200 manns höfðu skráð sig til þátttöku og von var á ríflega 130 erlendum gestum. Ráðstefna sem þessi hefur verið haldin árlega síðastliðin tólf ár, en þetta var í fyrsta sinn sem halda átti hana á Íslandi. Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail, segir ómögulegt að finna annan tíma fyrir ráðstefnuna. Hún falli því niður í ár. Enn hefur engum viðburðum verið aflýst á Listahátíð í Reykjavík.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Suðurland | 23.05.2011 18:07

Öræfabændur uggandi um búskapinn

Íbúar í Öræfum óttast að áhrif gossins í Vatnajökli hafi áhrif á búskap á svæðinu, dragist það á langinn. Flestir eru þó bjartsýnir á að gosið vari ekki lengi.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 17:59

Fylgst með áhrifum ösku á jarðveg

Enn er ekki ástæða til að óttast afleiðingar öskufallsins á bújarðir bænda. Fjöldi fólks vinnur að því að taka sýni á vettvangi en sumir hafa ekkert náð að vinna í dag vegna veðurs.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 17:56

Buðu frítt í sund og á söfn

Stjórnvöld og borgaryfirvöld hafa áhyggjur af því að eldgosið í Grímsvötnum kunni að hafa slæm áhrif á ferðaþjónustu. Tvö þúsund erlendir ferðamenn komust ekki leiðar sinnar í gær og í morgun og Reykjavíkurborg brá á það ráð að bjóða fólkinu frítt í sundlaugar og á söfn borgarinnar.

Eldgos í Grímsvötnum | Erlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 17:50

Askan hefur áhrif á ferðir Obama

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að flýta brottför sinni frá Írlandi vegna öskuskýsins frá Grímsvötnum. Obama kom í opinbera heimsókn til Írlands í morgun og hóf þar vikulanga ferð um Evrópu. Talsmaður Hvíta hússins segir að vegna breyttrar í vindáttar og þeirrar brautar sem öskuskýið fari ætli forsetinn að fara frá Írlandi til Lundúna í kvöld.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | Suðurland | 23.05.2011 17:42

Vinnum áfram að þessu lengi enn

„Þótt að gosið hætti núna á næstu dögum munu almannavarnir halda áfram að vinna við þetta verkefni um óákveðinn tíma." segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sem fundaði í dag með ríkisstjórn um aðstæður vegna eldgossins í Grímsvötnum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 17:33

Vart við ösku víða á Norðurlandi

Vart hefur orðið við öskufall víða um land. Á Norðurlandi hafa borist fréttir af öskufalli, frá Akureyri og Siglufirði, en einnig hefur orðið vart við öskufall austur í Þingeyjarsýslum, til dæmis á Húsavík, en þar er nú allt hulið hvítri kápu þar sem snjóað hefur í allan dag. Börnin í skólanum á Húsavík breyttust í töframenn í dag og bræddu snjó. Útkoman var aska. Á vefsíðu Veðurstofunnar getur fólk sent inn upplýsingar um öskufall.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 17:24

Glórulaus bylur á Skeiðarársandi

Tveir starfsmenn Raunvísindastofnunar sem eru við gjóskumælingar austur í Skaftafellssýslum, segja að vegurinn vestan Skeiðarársands og um sandinn sjálfan, sé nánast ófært. Þar er blind-ösku-þreifandi gjóskubylur og sést ekki milli stika segja þeir. Þeir mjakast á milli mælingastaða með því að fylgjast með vegköntum og brúarhandriðum.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 17:04

Eldvirknin í Grímsvötnum stöðug

Eldvirkni í Grímsvötnum hefur verið stöðug í dag. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu, sem Ríkislögreglustjóri var að gefa út. Gosmökkur hefur verið í 5 til 7 km. hæð. Mikið öskufall hefur verið skráð á láglendi sunnan og suðvestan af Vatnajökli. Búast má við talsverðu öskufalli allvíða suðaustanlands.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 16:37

Erfiðar aðstæður á Klaustri

Askan leikur ekki aðeins íbúa og búfénað á Suðurlandi grátt. Fréttamenn og tæknimenn RÚV sem eru á staðnum þurfa að glíma við afar erfiðar aðstæður.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 16:21

Alls ekkert ferðaveður

Eldgosið í Grímsvötnum er enn vel virkt. Hjálmar Björgvinsson, sem stjórnar aðgerðum í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð, segist hafa fengið frétttir af því að öskufall hafi aðeins minnkað á Kirkjubæjarklaustri þar sem það hefur verið mest. Enn sé þó ekkert ferðaveður og það gengur á með mjög mikilli blindu.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 16:10

Íbúafundur í Hofgarði í Öræfum

Almannavarnayfirvöld í Austur-Skaftafellssýslu boðuðu íbúa í Öræfum til fundar í félagsheimilinu Hofgarði eftir hádegi í dag. Farið var yfir stöðuna á gossvæðinu og til hvaða aðgerða þyrfti að grípa. Þrátt fyrir hamfarirnar eru Öræfingar allmennt yfirvegaðir en helstu áhyggjuefni manna, eftir því sem fram kom á fundinum, snúa að búpeningi og fóðuröflun þegar líður á sumarið. Fram kom á fundinum að opnuð verður þjónustumiðstöð fyrir Öræfinga í Hofgarði og verður hún opin tvo tíma á dag.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 16:01 Horfa á myndskeið

Sauðfé farið að drepast í Landbroti

Sauðfé er farið að drepast vegna öskufalls á Arnardrangi í Landbroti sunnan Kirkjubæjarklausturs.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 15:46

Óttast að hella þurfi niður mjólk

Mjólkursamsölunni á Selfossi tókst ekki að sækja mjólk á alla bæi í Landbroti, Meðallandi og austan Kirkjubæjarklausturs vegna öskufalls. Einn bændanna segir að ef mjólkin verður ekki sótt á morgun verði að hella henni niður.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 15:12

Flug hefst að nýju í kvöld

Millilandaflug hefst að nýju snemma í kvöld, en Keflavíkurflugvöllur hefur verið lokaður í rúman sólarhring. Fyrsta vél Icelandair leggur af stað til London Heathrow klukkan 18 í kvöld.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 15:07

Ætluðu að flytja fé í Meðalland

Bændur á tveimur bæjum í Mýrdalnum, nánar tiltekið við Sólheimajökul, ætluðu að flytja sauðfé í Meðalland til sumarbeitar, þar sem beitiland þeirra eru enn undir ösku frá því í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra. Þangað var féð flutt til sumarbeitar þá. Nú er óljóst hvort af þessu verður vegna mikils öskufalls í Meðallandi frá gosinu í Grímsvötnum. Þeir sem fréttastofa ræddi við voru þó bjartsýnir á að það tækist að finna annan stað fyrir kindurnar til að bíta í sumar, en beitarlöndin þar eru enn undir öskulagi.

Eldgos í Grímsvötnum | Erlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 14:46

Írland þakið öskumistri á morgun

Breska veðurstofan spáir því að gjörvallt Írland og Skotland og hluti Norður-Englands verði þakið öskumistri frá Grímsvötnum um klukkan sex í fyrramálið. Fulltrúi breskra flugmálayfirvalda segir í viðtali við Reuters fréttaveituna að miðað við þá spá muni það trufla flug þar strax á morgun.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 14:16

Bílrúður brotna í Hvalnesskriðum

Óveður er á milli Hafnar og Djúpavogs og ekkert ferðafæri. Framrúður hafa brotnað í bílum í miklu sandfoki. Allar rúður brotnuðu í í einum bíl sem var á leið um Hvalnesskriður.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 14:00 Horfa á myndskeið

Aukafréttatíminn: upptaka

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Höfuðborgarsvæðið | Hamfarir | Heilbrigðismál | 23.05.2011 13:47

Aska þéttist í Reykjavík í hádeginu

Svifryks í Reykjavík mældist yfir 360 míkrógrömm í rúmmetra í hádeginu. Þegar gildið fer yfir 400 hefur fólk verið hvatt til að gera ráðstafanir til að verjast menguninni, jafnvel þótt það sé hraust og heilbrigt.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 13:37

Öskuskýið nær til Skotlands í kvöld

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði áherslu á í viðtali við breska útvarpið BBC í dag að ólíklegt væri að sagan frá því í fyrra endurtæki sig þegar flugumferð í Evrópu stöðvaðist vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 13:16

Mengað vatnsból á Fossi á Síðu

Vatnsbólið við bæinn Foss á Síðu, um 10 kílómetra fyrir austan Kirkjubæjarklaustur, er mengað vegna öskufalls.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 13:15

Kortleggja stöðuna fyrir stjórnvöld

Samráðshópur á vegum Almennavarna byrjar í dag að kortleggja aðstæður á gossvæðunum og skilar skýrslu til ríkisstjórnar fyrir fund hennar á föstudag. Þar verða lagðar fram tillögur um með hvaða hætti stjórnvöld geti brugðist við afleiðingum eldgossins í Grímsvötnum fyrir þar sem fólk verður verst fyrir barðinu á gosinu.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Höfuðborgarsvæðið | Hamfarir | Heilbrigðismál | Suðurland | 23.05.2011 12:17

Misskipt loftgæði

Mörg hundruð sinnum meira er af svifryki í andrúmsloftinu þar sem öskufall er mest en á höfuðborgarsvæðinu.

Eldgos í Grímsvötnum | Innlendar fréttir | Hamfarir | 23.05.2011 12:01 Horfa á myndskeið

Áfram kröftugt gos næstu daga

Sérfræðingar gera ráð fyrir að kröftugt gos standi enn í nokkra daga með miklu gjóskufalli. Biksvartamyrkur er á Kirkjubæjarklaustri. Gríðarlegt öskufjúk og hættir fólk sér ekki milli húsa. Nokkur hundruð metra skyggni er austan Skeiðarársands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband